Ungmenni sem upplifa slakari tengsl við foreldra sína eru tvöfalt líklegri en þau sem eru í góðum tengslum við foreldra til að prófa bæði áfengi og kannabis. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem unnin var á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor við HÍ, stýrði rannsókninni ásamt Ársæli Arnarssyni prófessor.

Ragný segir að ef börnum líði illa og þau upplifi oft sállíkamleg einkenni, eins og höfuðverki, magaverki, bakverki, depurð, pirring, kvíða, svefnörðugleika og svima, auki það líkur á neyslu vímuefna. Jafnvel þótt börnin séu í góðum tengslum við foreldra.

Rannsóknin sem um ræðir var lögð fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla. Ragný sem vinnur að fleiri rannsóknum á þessu sviði bendir á að ungmenni sem nota vímuefni og hafa ýmist alist upp við erfið tengsl við fjölskyldu eða andlega vanlíðan tali um neysluna sem bjargráð frá slæmri líðan.

„Við erum alltaf að tala um þennan almenna hóp og tökum skólakannanir en gleymum því að krakkarnir sem eru í viðkvæmasta hópnum og búa oft við fjölþættan vanda eru í mestri hættu á að þróa með sér vímuefnavanda og alvarlegar geðraskanir. Þessi börn eru mörg dottin úr skóla strax í grunnskóla og taka ekki þátt í þessum könnunum,“ segir hún.

„Okkur líður rosalega vel að segja að við séum búin að ná tökum á vímuefnaneyslu ungmenna út frá skólakönnunum en heildarvímuefnaneysla í íslensku samfélagi hefur aukist,“ segir Ragný og bætir við að aðkallandi sé að þjónusta sé í boði fyrir börn í tengslum við andlega líðan þeirra.