Hækkandi yfir­borð sjávar er fylgi­fiskur lofts­lags­breytinga af manna­völdum. Í nýrri rann­sókn Climate Central kemur að ef yfir­völd í 50 stór­borgum við sjávar­síðuna vilja koma í veg fyrir að sjórinn gleypi ekki þétt­býl svæði þurfi að grípa til „áður ó­þekktra“ að­gerða.

Til að sýna fram á þær miklu breytingar sem fylgja hækkunar sjávar­borðs, ef fram fer sem horfir og meðal­hita­stig á jörðinni hækkar um þrjár gráður frá því sem var fyrir iðn­byltingu, hefur Climate Central birt gagn­virkar myndir þar sem á­hrifin sjást glögg­lega. Hægt er að draga til stiku á myndunum og bera saman hver á­hrifin verða á til­teknum svæðum hækki hita­stig um eina og hálfa gráðu eða þrjár.

Rann­sóknin var unnin í sam­starfi við Princet­on-há­skóla í Banda­ríkjunum og lofts­lags­á­hrifa­deild Pots­dam­stofnunarinnar í Þýska­landi.

Bjart­sýnustu spár gera ráð fyrir að hita­stig hækki um eina og hálfa gráðu ef út­blástur gróður­húsa­loft­tegunda dregst saman frá deginum í dag og kol­efnis­hlut­leysi náist fyrir árið 2050. Sam­kvæmt þeim sem eru minna bjart­sýnar, ef út­blástur eykst fram yfir 2050, gæti hita­stig á jörðinni hækkað um þrjár gráður fyrir um 2060 eða 2070. Þá mun yfir­borð sjávar hækka í marga ára­tugi á eftir, áður en það nær há­marki.

Það sem við gerum í dag hefur áhrif til frambúðar

„Það sem við gerum í dag hefur áhrif til frambúðar,“ segir Benja­min Straus­se, vísinda­maður hjá Climate Central og aðal­höfundur rann­sóknarinnar í sam­tali við CNN.

Við rann­sóknina var stuðst við gögn um hæð yfir sjávar­máli og fólks­fjölda til að finna út hvaða svæði heims standa verst frammi fyrir hækkun sjávar­borðs. Þau eru lang­flest í Asíu og Kyrra­hafi. Ey­ríki víða um heim eru í mestri hættu, við þeim blasir að þær sökkva „næstum allar“ í sjó sam­kvæmt skýrslunni.

Sam­kvæmt rann­sókninni búa nú um 385 milljónir manna á svæðum sem verða í hættu vegna hækkandi yfir­borðs sjávar, jafn­vel þó að dregið verði úr út­blæstri mengandi loft­tegunda. Um 510 milljónir búa á svæðum sem yrðu í hættu ef hita­stig hækkar um­fram eina og hálfa gráðu. Ef það hækkar um þrjár gráður gæti sjór náð á svæði þar sem um 800 milljónir lifa.

Kína, Ind­land, Víet­nam og Indónesía eru meðal þeirra ríkja sem eru í hvað verstri stöðu. Ríkin hafa aukið brennslu kola til orku­fram­leiðslu á undan­förnum árum sem mengar gríðar­lega mikið.

Í rann­sókn sem birt var í vísinda­ritinu Nature í septem­ber kom fram að til að hindra mætti að hita­stig hækkað um­fram eina og hálfa gráðu þyrftu um 60 prósent olíu og gass og 90 prósent kola að vera á­fram í jörð niðri. Í flestum heims­hlutum mætti fram­leiðsla jarð­efna­elds­neytis ekki aukast frekar frá því sem nú er, eða í það minnsta fyrir lok ára­tugarins.

Kín­verjar hafa lofað að ráðast í miklar að­gerðir til að draga úr út­blæstri en það er einn stærsti mengandi heims. Þeir ætla ekki að byggja ný kola­orku­ver utan land­steinanna og er það mikil stefnu­breyting. Undan­farin ár hafa þeir staðið fyrir gríðar­stóru upp­byggingar­verk­efni á heims­vísu, Belti og braut, þar sem þeir hafa reist orku­ver víða um heim einkum í þróunar­ríkjum.

Ef hita­stig hækkar um þrjár gráður telur Climate Central að um 43 milljónir manna í Kína muni búa á svæðum sem verða undir sjó fyrir árið 2100 og aðrar 200 milljónir í hættu vegna hækkunar sjávar­máls til lengri tíma litið.

Það er ekki bara hækkun sjávar sem veldur á­hyggjum. Eftir því sem hita­stig hækkar aukast líkur á öfgum í veður­fari á borð við þurrka, flóð og skógar­elda. Fari hitinn yfir eina og hálfa gráðu gæti lofts­lag heims breyst með áður ó­þekktum hætti.

Þó er rekinn sá var­nagli í skýrslunni að gögn skorta um varnar­ráð­stafanir gegn hækkandi sjávar­yfir­borði, líkt og sjó­varnar­garða og flóð­garða. Engu að síður sýni öfga­veður sumarsins að grípa þurfi til afar um­fangs­mikilla að­gerða.

„Meiri hækkun hita­stigs mun krefjast áður ó­þekktra varnar­að­gerða á heims­vísu eða að yfir­gefa þurfi stórar strand­borgir um heim allan,“ segir í skýrslunni. Ríkari lönd á borð við Bret­land og Banda­ríkin geta staðið straum af þessum kostnaði en það sama má ekki segja um þau sem fá­tækari eru.

Í lok mánaðar hefst ráð­stefna Sam­einuðu þjóðanna um að­gerðir í lofts­lags­málum í Glas­gow á Skot­landi, COP26. Þar ræða leið­togar heims um hvernig draga megi úr mengun og hve miklu fé rík lönd munu ráð­stafa til að hjálpa þeim fá­tækari til að draga úr notkun jarð­efna­elds­neytis.

Vísinda­fólk segir að tími sé kominn til rót­tækra að­gerða svo bjarga megi því sem bjargað verður. Annars sé fram­tíðin dökk.

„Þjóðar­leið­togar hafa val um að grípa til að­gerða eða svíkja mann­kynið. Rann­sóknin og myndirnar sýna hve mikið er undir í lofts­lags­við­ræðunum í Glas­gow,“ segir Strauss.