Dýraverndarsamband Íslands og Dýrahjálp Íslands sendu sameiginlega bréf til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í gær þar sem þess var óskað að sveitafélagið endurskoðaði nálgun sína varðandi  föngun og aflífun yfirgefinna katta.

Tilefnið er umdeild smölun villikatta sem hefst í dag í Héraði. „Í grundvallaratriðum teljum við bara að það hljóti að tilheyra fortíðinni að leggjast í veiðar og aflífanir á köttum,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Reiðin kraumar vegna boðaðrar útrýmingar villikatta í Héraði

„Okkur þykir líka sérkennilegt að Matvælastofnun hefur verið með þrýsting í þá átt að viðhalda þessum aflóga aðferðum. Skoðanir á þessu eru vissulega skiptar og það eru alls ekki allir sáttir við að svona sé gengið um þetta en þarna er líka fólk sem beitir sér gegn því að félög á borð við Dýraverndunarfélagið Villikettir geti starfað. Það er okkar mat og það kemur fram í bréfinu að þarna starfi Matvælastofnun ekki í anda laganna um velferð dýra og fylgi ekki markmiðum þeirra.“

Hallgerður segir svar við bréfinu hafa borist í dag og þar komi fram að aðgerðum verði ekki frestað en  reynt verði að finna heimili fyrir kisurnar. „Það er   skref í rétta átt, en eftir sem áður teljum við eðlilegt að málefni yfirgefinna katta fái betri farveg en svo að sífellt  fjölgi kisunum aftur á milli ára.“

Sjá einnig: Villikettir á Austurlandi fá gálgafrest

Dýrahjálpin og Dýraverndarsambandið biðja því dýravini að „halda áfram að láta sig málið varða, fylgjast með framvindu þess og til að hvetja bæjarstjórnina til að velja  betri leiðir en veiðar og aflífanir,  aðferðir sem ættu að heyra fortíðinni til.“

Hægt er að lesa bréfið frá samtökunum á vef Dýraverndarsambandsins en þar er einnig í gangi undirskriftasöfnun þar sem skorað er á ráðherra dýravelferðar á Íslandi að setja sem fyrst reglugerð til aukinnar velferðar katta sem lifa villtir eða á vergangi. Við teljum ekki boðlegt að þeir séu einungis aflífaðir á vegum stjórnvalda.“

Einnig er óskað eftir því að „útfærð verði heimild til skipulags starfs félagasamtaka í þágu kisanna, en markmið slíkrar starfsemi er að útrýma villikattabyggðum á mannúðlegan hátt.“

Hryggilegt tómlæti

Í bréfinu segir meðal annars að hryggilegt tómlæti hafi lengi ríkt gagnvart vanda yfirgefinna katta á Íslandi. Hallgerður segist þó telja, byggt á langri reynslu, að „lang flest fólk, hvort sem það heldur dýr eða ekki, lætur sig varða velferð dýra. Langsamlega flestir eru bara sem betur fer þannig innréttaðir að þeir líta á dýrin sem minni máttar og finna til ábyrgðar gagnvart þeim. Það eru mjög fáir sem er sama um dýr,“ segir hún við Fréttablaðið. Þetta breyti því þó ekki að stöðugt þurfi að halda fólki upplýstu enda margir ekki meðvitaðir um stöðu dýraverndarmála á Íslandi.

„Bæði gömul og ný félög dýravina hafa lengi barist fyrir aukinni velferð katta m.a. með því að finna þeim ný heimili eða minna eigendur þeirra á ábyrgð sína, svo eitthvað sé nefnt,“ segir einnig í bréfinu og síðan er vikið að starfsemi Villikatta. „Á síðari árum varð félagið Villikettir til og hefur beitt sér beint í þágu þessara yfirgefnu katta. Ein jákvæð afleiðing af því starfi er að fjöldi týndra katta hefur ratað heim til sín eða verið fundið nýtt heimili enda eru fæstir þeirra katta sem nást í búr í raun villikettir. Því miður liggur meindýrshugtakið enn undir í umræðu um þá ketti sem raunverulega eru villtir og tregða hefur verið til að hjálpa þeim, enda vandinn flókinn.“

Bréfi Dýraverndarsambands Íslands og Dýrahjálpar Íslands til sveitarstjórnarinnar lýkur síðan á þeim orðum að af tveimur erfiðum kostum telji samtökin „í öllu falli ljóst að það sé fremur í anda gildandi laga um velferð dýra að stemma stigu við fjölgun villikatta með aðferð félagsins Villikatta heldur en með skipulegri aflífun á þeim.“