Skyttur sérsveitarinnar hafa komið sér fyrir í skotstöður fyrir aftan bíla sína á meðan viðræður standa yfir við byssumann í fjölbýlishúsi við Miðvang í Hafnarfirði.

Fjórum skotum var hleypt af í morgun. Karlmaður, sem er íbúi við Miðvang 41, skaut á bíl sem var lagt fyrir aftan verslun Nettó. Lögreglan fékk tilkynningu um skotárásina klukkan 7:40 í morgun

Búið er að girða fyrir eða loka svæðið af; íbúar mega ekki fara inn en ekki er búið að rýma fjölbýlishúsið. Nettó hefur verið lokað og lögreglan gerir ráðstafanir til að tryggja öryggi leikskólabarna sem eru í leikskóla bak við blokkina.

Sérsveitarmenn og lögregluþjónar eru inni í blokkinni og einnig fyrir utan.
Fréttablaðið/Helena

Lögreglufulltrúar sem Fréttablaðið ræddi við sögðu að aðgerðirnar gætu tekið allan dag, svo virðist sem það gangi hægt að semja við byssumanninn.

Dróni sérsveitarinnar er í loftinu og hringsólar fjölbýlishúsið. Lögreglan hefur einnig tekið fram fjarstýrðan bíl.

Lítill fjarstýrður bíll lögreglunnar sem á sennilega að senda inn í bygginguna.
Fréttablaðið/Helena

Það sem er vitað

  • Skotmaðurinn er íbúi við Miðvang 41.
  • Sjónarvottar segja fjórum skotum hafa verið hleypt af.
  • Lögregla fékk tilkynningu um skotárásina 7:40 í morgun.
  • Ekki er búið að rýma bygginguna og íbúar fyrir utan komast ekki inn. Svæðið er ekki talið öruggt.
  • Nettó og leikskólanum Víðivöllum hefur verið lokað. Starfsfólki og börnum á leikskólanum hefur verið gert að halda sig innandyra.
  • Eigandi bílsins er í skýrslutöku hjá lögreglu. Hann er ekki særður.
  • Samningamenn lögreglu ræða við manninn í gegnum síma.
Sérsveit og lögregla á afgirtu svæði við blokkina.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tilkynning barst frá lögreglu klukkan 10:33 í morgun.

Á áttunda tímanum í morgun var tilkynnt um skothvelli við fjölbýlishús á Miðvangi í Hafnarfirði, en grunur leikur á að íbúi í húsinu hafi skotið á kyrrstæða bifreið sunnan megin við fjölbýlishúsið. Þar eru bifreiðastæði, en gegnt húsinu er leikskóli. Aðgerðir lögreglu á vettvangi standa enn yfir, en starfsfólki og börnum á leikskólanum hefur verið gert að halda sig innandyra á meðan á þeim stendur og þá hefur verið lokað fyrir alla umferð um hluta Miðvangs. Engan sakaði í morgun, en ljóst er að mikil hætta var á ferð og var sérsveit ríkislögreglustjóra strax kölluð til vegna alvarleika málsins.

Engar frekari upplýsingar er hægt að veita að  svo stöddu.