Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar og for­maður vel­ferðar­nefndar Al­þingis, vonast til þess að hægt sé að breyta lögum um hluta­bætur fyrir þá sem lenda í skertu starfs­hlut­falli á þingfundi morgundagsins eða á mánudag. Þetta skrifar hún á Face­book síðu sinni í dag.

Frétta­blaðið vakti at­hygli á því í gær að aldurs­skil­yrði at­vinnu­leysis­trygginga væri meðal þeirra skilyrða sem þarf að uppfylla til að fá bætur fyrir skert starfshlutfall. Þannig eru þeir sem 70 ára eða eldri á vinnu­markaði ekki gjald­gengir til að fá bætur fyrir. Georg Georgsson sem er 70 ára og var í fullri vinnu fékk þessi svör frá Vinnumálastofnun í vikunni. Starf hans var fært niður í 50% starfshlutfall en ólíkt samstarfsfélögum sínum var honum hafnað um bætur sökum aldurs.

„At­hygli mín var vakin á því að í lögum um hluta­bætur, sem við af­greiddum með hraði úr Vel­ferðar­nefnd og þingi fyrir rúmri viku væri einn á­galli. Þannig er að í lögum um at­vinnu­leysis­tryggingar er eitt skil­yrða fyrir at­vinnu­leysis­bætur þær að um­sækj­endur verða að vera á aldrinum 18-70 ára. Þannig geta þeir sem eldri eru en 70 ára og fara núna á skert starfs­hlut­fall ekki sótt um hluta­bætur. Það er ein­fald­lega ekki laga­heimild fyrir því,“ skrifar Helga Vala á Face­book.

„Í með­ferð okkar á þessu máli af­tengdum við á­kvæði varðandi náms­menn, sem alla jafna geta ekki sótt um at­vinnu­leysis­bætur, en geta nú sótt um hluta­bætur. Ég tel rétt að við tökum einnig til­lit til þessa hóps eldri en 70 ára sem enn eru á vinnu­markaði,“ segir hún enn fremur.

Hún hefur lagt fram breytingar­til­lögu og sent á alla með­limi Vel­ferðar­nefndar og óskað eftir stuðningi við tillöguna. „Vonandi fæst sam­þykki meiri­hluta nefndarinnar fyrir þessu, enda skýrt rétt­lætis­mál að mínu mati. Við ættum þá að geta lag­fært þetta á þeim þing­fundum sem fyrir­hugaðir eru á morgun og mánu­dag,“ skrifar hún að lokum.