Aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, Tómas Gíslason, segir það skýrt í lögum hverjir geta verið skráðir viðbragðsaðilar en til þess að vera skráður þarf sem dæmi að vera með ýmsan búnað meðferðis.
Einn lést í snjóflóði í Svarfaðardal í gær en þar lentu þrír bandarískir ferðamenn lent í snjóflóði fyrir ofan bæinn Skeið. Tilkynning barst Neyðarlínunni klukkan 19:10 og voru fyrstu viðbragðsaðilar komnir á vettvang klukkan 19:55.
Reyndur ferðaþjónustuaðili á Dalvíkursvæðinu hefur vakið athygli á því að á svæðinu séu sérþjálfaðir skíðaleiðsögumenn með sérþekkingu ì snjóflóðaspá og björgun úr snjóflóðum, bæði íslenskir og erlendir auk þess sem að í nálægt við Svarfaðardal eru í það minnsta fimm þyrlur, þrjár á Siglufirði og svo á Deplum eru tvær þyrlur.
Enginn þeirra vissi þó af slysinu fyrr seint og enginn þeirra var kallaður til. Hann veltir því fyrir sér af hverju þeir eru ekki er á lista viðbragðsaðila og telur að þeir hefðu getað verið komnir mun fyrr á vettvang en fyrstu viðbragðsaðilar gerðu.
Kalla oft eftir aðstoð almennra borgara
Klukkan 20:50 var verið að hefja flutning mannanna á sjúkrahús en einn var fluttur með þyrlu á Landspítalann. Samkvæmt tilkynningu lögreglu var hann látinn þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hinir tveir voru fluttir með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið á Akureyri.
„Það er í lögum hverjir eru skráðir sem viðbragðsaðilar hverju sinni og svo eru sérstök lög um rétt á sjó, allir sjófarendur eru í rauninni skyldir til að veita neyðaraðstoð. Við höfum reyndar gengið ansi langt í að kalla til að eftir fólki sem geta hjálpað, eins og á bóndabæjum eða eitthvað slíkt, þegar eitthvað kemur fyrir,“ segir Tómas í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að það séu dæmi um það að venjulegar þyrlur hafi verið notaðar í björgun en að oft hafi komið upp eitthvað vesen eftir það, sem dæmi vegna trygginga, en þær eru ekki sérstaklega tryggðar vegna flutnings á veikum eða slösuðum.
„Það eru alls konar mál sem eru óleyst.“
Hafa ekki búnað
Tómas segir að það séu samt sem áður dæmi þar sem venjulegar þyrlur hafa verið notaðar til björgunar og tekur dæmi um að fyrir rúmum mánuði hafi akkúrat það verið gert til að aðstoða við björgun skíðamanns á Tröllaskaga.
„En þeir eru ekki boðað viðbragð því þeir hafa ekki búnað til að flytja, eru ekki með fjarskipti til að ræða við viðbragðsaðila og nákvæmlega hvaða bjargir eru notaðar á hverjum stað er algerlega undir stjórn aðgerðastjórnanda á vettvangi. Neyðarlínan ræsir út viðbragð og það er lögregla, landhelgisgæsla eða björgunarsveitir og hvað þeir nota til viðbótar er allskonar,“ segir Tómas.
Hann segir að björgunarsveitarmenn og lögreglumenn séu yfirleitt með alla klær úti í að finna fólk til að aðstoða á vettvangi en það sé annað mál þegar kemur að búnaði og tækjum, eins og til dæmis þyrlum.
„Björgunarþyrlur eru til dæmis með tvo mótora, svo það sé annar til að taka við ef einn gefur sig. Þessar túristaþyrlur eru það ekki og það eru alls konar kröfur sem koma inn. En þetta er auðvitað ekki einfalt mál og það væri frábært ef allir í nálægð væru nothæfir, en það kannski má ekki.“