Aðal­með­ferð í Rauða­gerðis­málinu svo­kallaða hefst í Héraðs­dómi Reykja­víkur í dag en næstu fjóra daga verða tekin skýrslur af um það bil 40 vitnum í tengslum við málið. Á­ætlað er að mál­flutningur hefjist þann 23. septem­ber næst­komandi.

Tölu­vert af gögnum sem aflað hefur verið verða lögð fram við aðal­með­ferðina, eða um þrjú þúsund blað­síður, auk þess sem mikil vinna hefur farið í það að út­vega vitnum og sak­borningum túlka, sem tala ýmis tungu­mál.

Fyrir­taka málsins fór fram við héraðs­dóm síðast­liðinn þriðju­dag en fjórir ein­staklingar, þrír karl­menn og ein kona, eru á­kærð fyrir mann­dráp eftir að Armando Beqirai, albanskur karl­maður á fer­tugs­aldri, var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauða­gerði þann 13. febrúar síðast­liðinn.

Þrjú neita sök

Við þing­festingu málsins þann 25. maí síðast­liðinn játaði að­eins einn sök í málinu en hin þrjú neituðu. Angjelin Sterka­j, sem einnig er frá Albaníu, sagðist þar hafa skotið Armando og að hann hafi verið einn að verki. Játning Angjelin í málinu hafði legið fyrir frá því í mars en í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr á árinu sagði hann málið til­komið af per­sónu­legum á­stæðum.

Hin sem eru á­kærð eru Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, unnusta Angjelin, auk Murat Seli­vrada og Shpetim Qerimi. Tíu til við­bótar sem voru á tíma­bili með réttar­stöðu sak­bornings í málinu voru ekki á­kærð þegar málið var þing­fest, þar á meðal einn Ís­lendingur. Í heildina voru þau fjór­tán sem lágu undir grun frá ellefu þjóð­ernum.

Umfangsmikil rannsókn

Rann­sókn málsins hefur verið mjög um­fangs­mikil en lög­reglu grunaði strax og þau voru kölluð út að Rauða­gerði þann 13. febrúar að um mann­dráp af á­setningi væri að ræða. Við upp­haf rann­sóknarinnar vaknaði grunur um að málið tengdist ein­hvers­konar upp­gjöri milli brota­hópa hér á landi, bæði er­lendum og ís­lenskum.

Tólf voru hand­teknir vegna málsins á fyrstu stigum rann­sóknarinnar og tveir til við­bótar síðar en mest voru níu í gæslu­varð­haldi á sama tíma. Um var að ræða ein­stak­linga frá Ís­landi, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Albaníu, Eist­landi, Serbíu, Lett­landi, Hvíta-Rúss­landi og Litháen.

Farið var í á annan tug hús­leita við rann­sókn málsins auk þess sem leitað var í bílum og á víða­vangi. Lög­regla lagði hald ýmsa muni í tengslum við rann­sókn málsins, þar á meðal síma, tölvur, skot­vopn og skot­færi. Þá var upp­lýsinga aflað úr öryggis­mynda­vélum, sím­tækjum og tölvum.

Fylgdust með ferðum Armando

Í á­kæru gegn fjór­menningunum er byggt á því að um sam­verknað hafi verið að ræða en Angejlin var sá sem skaut Armando. Murat er sagður hafa sýnt Claudiu tvo bíla sem til­heyrðu Armando og gefa henni þau fyrir­mæli að fylgjast með þeim og láta vita ef hreyfing yrði á þeim, sem hún síðan gerði.

Shpetim er síðan sakaður um að hafa ekið með Angjelin að Rauðar­gerði skömmu áður en Armando var myrtur og síðar af vett­vangi eftir morðið. Í á­kæru segir að Sheptim hafi ekið á eftir bíl Armandos, hleypt Angjelin út, keyrt nokkrar húsa­lengdir, snúið við og beðið eftir merki frá Angjelin.

Í á­kæru segir að Angjelin hafi falið sig við bíl­skúr við heimili Armando um það leiti sem hann var að koma heim í kringum mið­nætti. Þegar Armando kom út úr bíl­skúrnum hafi Angjelin síðan skotið hann níu skotum í líkama og höfuð með 22 kalí­bera Sig Sauer skamm­byssu en Armando lést eftir á­rásina.

Í kjöl­farið hafi Angjelin og Sheptim farið út úr bænum alla leið í Varma­hlíð í Skaga­firði með við­komu í Kolla­firði þar sem Angjelin á að hafa hent skot­vopninu í sjóinn. Vopnið fannst síðan í sjó rúmum mánuði eftir að Armando var myrtur.

Hulda Elsa Björg­vins­dóttir, yfir­maður á­kæru­sviðs hjá Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, sagði síðast­liðinn mars í sam­tali við Frétta­blaðið að þau hafi ekki fengið neinar á­bendingar um stað­setningu vopnsins heldur hafi „inn­sæi og at­hyglis­gáfa“ lög­reglu­manna gert það að verkum að þeir gátu lesið milli línanna í fram­burðum og fundið vopnið.