Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu svokallaða hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en næstu fjóra daga verða tekin skýrslur af um það bil 40 vitnum í tengslum við málið. Áætlað er að málflutningur hefjist þann 23. september næstkomandi.
Töluvert af gögnum sem aflað hefur verið verða lögð fram við aðalmeðferðina, eða um þrjú þúsund blaðsíður, auk þess sem mikil vinna hefur farið í það að útvega vitnum og sakborningum túlka, sem tala ýmis tungumál.
Fyrirtaka málsins fór fram við héraðsdóm síðastliðinn þriðjudag en fjórir einstaklingar, þrír karlmenn og ein kona, eru ákærð fyrir manndráp eftir að Armando Beqirai, albanskur karlmaður á fertugsaldri, var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði þann 13. febrúar síðastliðinn.
Þrjú neita sök
Við þingfestingu málsins þann 25. maí síðastliðinn játaði aðeins einn sök í málinu en hin þrjú neituðu. Angjelin Sterkaj, sem einnig er frá Albaníu, sagðist þar hafa skotið Armando og að hann hafi verið einn að verki. Játning Angjelin í málinu hafði legið fyrir frá því í mars en í samtali við Fréttablaðið fyrr á árinu sagði hann málið tilkomið af persónulegum ástæðum.
Hin sem eru ákærð eru Claudia Sofia Coelho Carvahlo, unnusta Angjelin, auk Murat Selivrada og Shpetim Qerimi. Tíu til viðbótar sem voru á tímabili með réttarstöðu sakbornings í málinu voru ekki ákærð þegar málið var þingfest, þar á meðal einn Íslendingur. Í heildina voru þau fjórtán sem lágu undir grun frá ellefu þjóðernum.
Umfangsmikil rannsókn
Rannsókn málsins hefur verið mjög umfangsmikil en lögreglu grunaði strax og þau voru kölluð út að Rauðagerði þann 13. febrúar að um manndráp af ásetningi væri að ræða. Við upphaf rannsóknarinnar vaknaði grunur um að málið tengdist einhverskonar uppgjöri milli brotahópa hér á landi, bæði erlendum og íslenskum.
Tólf voru handteknir vegna málsins á fyrstu stigum rannsóknarinnar og tveir til viðbótar síðar en mest voru níu í gæsluvarðhaldi á sama tíma. Um var að ræða einstaklinga frá Íslandi, Rúmeníu, Spáni, Ítalíu, Portúgal, Albaníu, Eistlandi, Serbíu, Lettlandi, Hvíta-Rússlandi og Litháen.
Farið var í á annan tug húsleita við rannsókn málsins auk þess sem leitað var í bílum og á víðavangi. Lögregla lagði hald ýmsa muni í tengslum við rannsókn málsins, þar á meðal síma, tölvur, skotvopn og skotfæri. Þá var upplýsinga aflað úr öryggismyndavélum, símtækjum og tölvum.
Fylgdust með ferðum Armando
Í ákæru gegn fjórmenningunum er byggt á því að um samverknað hafi verið að ræða en Angejlin var sá sem skaut Armando. Murat er sagður hafa sýnt Claudiu tvo bíla sem tilheyrðu Armando og gefa henni þau fyrirmæli að fylgjast með þeim og láta vita ef hreyfing yrði á þeim, sem hún síðan gerði.
Shpetim er síðan sakaður um að hafa ekið með Angjelin að Rauðargerði skömmu áður en Armando var myrtur og síðar af vettvangi eftir morðið. Í ákæru segir að Sheptim hafi ekið á eftir bíl Armandos, hleypt Angjelin út, keyrt nokkrar húsalengdir, snúið við og beðið eftir merki frá Angjelin.
Í ákæru segir að Angjelin hafi falið sig við bílskúr við heimili Armando um það leiti sem hann var að koma heim í kringum miðnætti. Þegar Armando kom út úr bílskúrnum hafi Angjelin síðan skotið hann níu skotum í líkama og höfuð með 22 kalíbera Sig Sauer skammbyssu en Armando lést eftir árásina.
Í kjölfarið hafi Angjelin og Sheptim farið út úr bænum alla leið í Varmahlíð í Skagafirði með viðkomu í Kollafirði þar sem Angjelin á að hafa hent skotvopninu í sjóinn. Vopnið fannst síðan í sjó rúmum mánuði eftir að Armando var myrtur.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði síðastliðinn mars í samtali við Fréttablaðið að þau hafi ekki fengið neinar ábendingar um staðsetningu vopnsins heldur hafi „innsæi og athyglisgáfa“ lögreglumanna gert það að verkum að þeir gátu lesið milli línanna í framburðum og fundið vopnið.