Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir ljóst að skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verði ekki tilbúin fyrir lok júní. Þingi var frestað í síðustu viku en Alþingi verður kallað saman til framhaldsfundar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar berst.
Samkvæmt upphaflegri tímaáætlun átti skýrslan að vera tilbúin fyrir lok júní en Guðmundur segir ljóst að hún muni ekki skila sér fyrr en eftir mánaðamót.
„Eins og með aðrar úttektir þá eru þær lifandi og það er ýmislegt sem getur komið upp á og hefur áhrif á tímarammann. Það er svona útlit fyrir að þetta dragist hjá okkur um einhverjar vikur en vonandi ekkert meira en það,“ segir Guðmundur. Spurður um hvort hann búist við skýrslunni fyrir verslunarmannahelgina á hann von á því eins og staðan er í dag.
„Þetta er í sjálfu sér ekkert einfalt mál. Það þarf alltaf að huga að þeim upplýsingum sem þú hefur, svo þarf að afla upplýsinga og hvert leiða gögnin þín og þar fram eftir götunum. Þannig að það var alltaf viðbúið að það gæti teygst eitthvað á þessu. Við erum enn að vinna á fullu í þessu og ætlum þá að reyna klára þetta í júlí. Það er útséð með að við náum að klára þetta núna í júnímánuði,“ segir Guðmundur.