Guð­mundur Björg­vin Helga­son ríkis­endur­skoðandi segir ljóst að skýrsla Ríkis­endur­skoðunar um sölu á hlut ríkisins í Ís­lands­banka verði ekki til­búin fyrir lok júní. Þingi var frestað í síðustu viku en Al­þingi verður kallað saman til fram­halds­fundar þegar skýrsla Ríkis­endur­skoðunar berst.

Sam­kvæmt upp­haf­legri tíma­á­ætlun átti skýrslan að vera til­búin fyrir lok júní en Guð­mundur segir ljóst að hún muni ekki skila sér fyrr en eftir mánaða­mót.

„Eins og með aðrar út­tektir þá eru þær lifandi og það er ýmis­legt sem getur komið upp á og hefur á­hrif á tíma­rammann. Það er svona út­lit fyrir að þetta dragist hjá okkur um ein­hverjar vikur en vonandi ekkert meira en það,“ segir Guð­mundur. Spurður um hvort hann búist við skýrslunni fyrir verslunar­manna­helgina á hann von á því eins og staðan er í dag.

„Þetta er í sjálfu sér ekkert ein­falt mál. Það þarf alltaf að huga að þeim upp­lýsingum sem þú hefur, svo þarf að afla upp­lýsinga og hvert leiða gögnin þín og þar fram eftir götunum. Þannig að það var alltaf við­búið að það gæti teygst eitt­hvað á þessu. Við erum enn að vinna á fullu í þessu og ætlum þá að reyna klára þetta í júlí. Það er út­séð með að við náum að klára þetta núna í júní­mánuði,“ segir Guð­mundur.