Fjármagna þarf geðheilbrigðisþjónustuna til lengri tíma, að mati formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Heilbrigðisráðuneytið er gagnrýnt í nýrri skýrslu um málaflokkinn. Stjórnvöld hafa ekki yfirsýn, upplýsingum er ekki safnað og mismunun hefur viðgengist.

„Skýrslan staðfestir í raun það sem vitað er um veikleikana í geðheilbrigðisþjónustunni og heilbrigðiskerfinu hvað hana varðar,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, um nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um stöðu geðheilbrigðismála.

Þórunn segir skýrsluna áfellisdóm yfir heilbrigðiskerfinu. Geðheilbrigðismálin séu olnbogabarn þess og löngu tímabært sé að hætta tilviljanakenndum átaksverkefnum.

Skortur á yfirsýn er rauður þráður í skýrslunni. Upp­lýs­ing­ar um tíðni og þróun geðsjúk­dóma liggja ekki fyr­ir, ekki er hald­in miðlæg skrá um biðlista og ekki hef­ur farið fram grein­ing á þjón­ustu og mannaflaþörf Land­spít­ala. Þá liggja ekki fyrir upp­lýs­ing­ar um fjárþörf og raun­kostnað þjón­ust­unn­ar. Töl­ur um óvænt eða al­var­leg at­vik við veit­ingu geðheil­brigðisþjón­ustu eru ekki nægilega aðgengilegar né upplýsingar um fjölda kvartana til landlæknis. Engin skráning á beitingu þvingunarúrræða er fyrir hendi.

Ríkisendurskoðun varð sjálf fyrir barðinu á þessari óreglu en í skýrslunni er gagnrýnt hve erfiðlega gekk að fá svör og upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu vegna úttektarinnar: „Mátti Ríkisendurskoðun bíða mánuðum saman eftir svörum við tilteknum spurningum, þrátt fyrir ítrekanir. Ríkisendurskoðun telur jafnframt sum svör ráðuneytisins hafa verið óskýr og illa rökstudd þegar þau loks bárust,“ segir í skýrslunni.

Fréttablaðið sendi ráðuneytinu fyrirspurn þann 2. maí og óskaði viðbragða við gagnrýninni. Nú þremur vikum síðar hefur fyrirspurninni enn ekki verið svarað.

Þá er bent á innbyggða mismunun í geðheilbrigðiskerfinu. „Aðgengi að þjónustu ræðst gjarnan af efnahag, tegund geðvanda og búsetu. Mismunun felst einnig í því að tilteknir hópar lenda á svokölluðu gráu svæði og fá ekki þjónustu við hæfi,“ segir í skýrslunni.

„Við verðum hér að hugsa um fjármögnun þjónustunnar til lengri tíma með skýrum markmiðum. Um það snýst málið. Geðheilbrigðisstefnan ein og sér getur verið ágæt, en á henni þarf að byggja aðgerðaáætlanir og hana þarf að sjálfsögðu að fjármagna. Hverja einustu aðgerð, hvert einasta skref. Og þar reynir á pólitíkina,“ segir Þórunn.

Hún segir að vissulega séu margir veikleikar í kerfinu, grá svæði og gloppur, sem skýrslan bendi réttilega á. „Það er til dæmis ekki verið að tryggja fólki samfellda þjónustu og aðgengi er ekki nægilega gott,“ segir Þórunn.

Mönnunarvandi sé einnig stór þáttur og skortur á eftirfylgni þeirrar stefnu sem stjórnvöld hafi markað. „Það hefur vissulega verið farið í tiltekin átaksverkefni en þetta verkefni er svo miklu, miklu stærra en að það sé hægt að leysa það með nokkrum átaksverkefnum.“ Það þurfi langtíma fjármögnun úr ríkissjóði til að bæta geðheilbrigði í landinu. „Það mun á endanum auðvitað skila sér margfalt til baka ef okkur tekst að fækka sjálfsvígum, draga úr því að fólk missir starfsgetu eða lendir á örorkubótum og þar fram eftir götunum,“ segir Þórunn.

„Ég lít svo á að þessi skýrsla sé tækifæri fyrir þingið til að sameinast um það sem við vitum öll að við þurfum að gera. Þá þarf pólitíkin að eiga það samtal mjög heiðarlega,“ segir Þórunn.