Í ís­lenskum orða­bókum er orð­skýring orðsins húð­litaður nú skráð sem „litur sem líkist ljósu manns­hörundi.“ Ís­lensk nú­tímamáls­orða­bók, vef­orða­bók Stofnunar Árna Magnús­sonar hyggst nú endur­skil­greina orðið.

„Þetta er gömul skil­greining á orðinu húð­litaður og er ekki lengur pólitísk rétt að segja að þetta sé litur á hvítri húð,“ segir Þór­dís Úlfars­dóttir, orða­bókar­rit­stjóri, og þakkar fyrir á­bendinguna. „Við munum klár­lega breyta þessari skýringu áður en vikan er úti.“

Úti­lokandi orða­notkun

Ari Páll Kristins­son, mál­fræðingur, segir aug­ljóst að húð geti verið mis­munandi á litinn þannig ekki sé við­eig­andi að nota orðið húð­litaður að­eins um þau sem eru ljós á hörund. „Að nota húð­litað yfir það sem á ein­göngu við húðina á flestum inn­fæddum Ís­lendingum er úti­lokandi fyrir þá Ís­lendinga sem hafa annan húð­lit.“

Mál­fræðingarnir eru sam­róma um að notkun orðsins í þessari merkingu geti haft nei­kvæð á­hrif á stóran hóp fólks og að það sé orðið úr­elt. „Ég myndi ekki nota þetta orð á þennan hátt vegna þess að það getur verið meiðandi fyrir þá sem að eru ekki með ljóst manns­hörund,“ í­trekar Ari Páll.

Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir ritstýra Íslensku Nútímaorðabókinni.
Fréttablaðið/Ernir

Taka þurfi af­stöðu

„Í orða­bókum er verið að lýsa hvernig orð er notað í sam­fé­laginu í dag og hver merking þess er í textum sem hafa verið gefnir út í gegnum tíðina,“ segir Ari. Al­mennt sé ekkert sér­stak­lega hugað að því að taka af­stöðu til lýsingarinnar.

„Breyting á skýringunni yrði því ýmist háð því að nógu margir myndu sann­færast um að þetta væri ó­heppi­leg og meiðandi orð­lýsing eða þá að rit­stjórar orða­bóka tækju frum­kvæði og bentu á van­kanta lýsingarinnar og að hún væri ekki öllum að skapi,“ bætir Ari við.

Orð­skýringar iðu­lega endur­hugsaðar

Ís­lensk nú­tímamáls­orða­bók býr yfir þeirri sér­stöðu að geta breytt skýringum í takt við tíðar­anda sam­fé­lagsins á stuttum tíma. „Það kemur oft fyrir að við þurfum að breyta orð­skýringum hjá okkur þar sem sumar skýringar eru orðnar gamlar,“ segir Þór­dís.

Að­spurð hvort breytingarnar geti ekki ruglað fólk sem lesi gamla texta út­skýrir Þór­dís að oft sé skýringum skipt í tvo merkingar­liði. „Í þessu dæmi yrði í fyrsta lagi út­skýrt að húð­litur væri hörunds­litur manns, ljós eða dökkur eftir at­vikum og svo kæmi eldri merking orðsins fram.“

Þór­dís bendir á að að oft sé lausnum leitað á þann hátt að hægt sé að finna eldri merkingu orðsins í við­eig­andi sam­hengi. „Til að mynda var mikið talað um húð­litaðar sokka­buxur fyrir um fjöru­tíu árum þegar sokka­buxur voru oftast þannig á litinn og vin­sælar meðal kvenna.“

Ari Páll Kristinsson, íslenskufræðingur, myndi ekki nota orðið húðlitur um ljósa húð.
Fréttablaðið/Sigtryggur

Á­bendingar vel­komnar

Það kemur mun oftar fyrir í dag en áður að vef­orða­bókinni berist á­bendingar um að orð­skýringar séu löngu úr sér gengnar. „Okkur var bent á að orðið nauðgun hefði gamal­dags skýringu þar sem að­eins var miðað við karl og konu.“ Sýringu orðsins var í kjöl­farið breytt og hefur nú víð­tækari merkingu. „Það til­vik er dæmi um skýringu sem við höfum breytt vegna á­bendinga frá les­endum.“

Mikil­vægt er að hafa líf í orða­bókinni að mati Þór­dísar sem hvetur fólk til að senda á­bendingu ef það verður vart við orð sem er of þröngum stakk búið. „Við tökum allar á­bendingar til greina og reynum að hafa alltaf rétta mynd af því hvað orðin þýða.“ Hægt er að hafa sam­band á vef­síðu orða­bókarinnar hve­nær sem er og má búast við að svör berist skjótt.

Þessari orðlýsingu verður breytt í vikunni.