„Þetta er algjört hneyksli,“ segir Jónas Haraldsson lögmaður um stöðu mála við Silfru á Þingvöllum.

Jónas gagnýnir harðlega umsvif og ágang köfunarfyrirtækja við gjánna Silfru í miðjum Þingvallaþjóðgarði sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Eftir samskipti við formann Þingvallanefndar, fyrrverandi þjóðgarðsvörð og fleiri kveðst Jónas hafa gripið til þess ráðs að senda kvörtun til Heimsminjaskrárinnar.

Mechtild Rössler, forstjóri Heimsminjaskrifstofunnar, þakkaði Jónasi ábendinguna og sendi síðan í september íslenskum stjórnvöldum bréf með óskum um skýringar.

„Mig langar að biðja þau yfirvöld sem ábyrg eru í málinu að útvega Heimsminjaskrifstofunni upplýsingar um þetta mál við fyrsta tækifæri,“ segir í bréfi Rössler sem lagt var fram á fundi Þingvallanefndar 25. september síðastliðinn. Þar var ákveðið að fela Einari Á. Sæmundsen þjóðgarðsverði að vinna drög að svörum til Heimsminjaskrifstofunnar.

Rakið er í kvörtun Jónasar hversu umfangsmikil starfsemi köfunarfyrirtækjanna sé með salernum, stálpalli, bílaflota og alls kyns búnaði sem skapi sjónmengun fyrir aðra gesti þjóðgarðsins og álag á lífríki Silfru sem hafi látið stórlega á sjá. Vísar hann í því sambandi til rannsóknar sem gerð hafi verið árin 2014 og 2015.

f88130317 silfra_04.jpg

Silfra er vinsæll köfunarstaður

„Niðurstöður þessarar rannsóknar hefur algjörlega verið hunsuð af stjórn þjóðgarðsins því þetta myndi þýða bann á alla köfun í gjánni Silfru sem valda myndi þjóðgarðinum tekjutapi,“ skrifar Jónas til Unesco.

Vegna anna hjá Ara Trausta Guðmundssyni, formanni Þingvallanefndar, náðist ekki tal af honum við vinnslu þessarar fréttar í gær. Hann útskýrði hins vegar afstöðu sína í tölvupósti til Jónasar um miðjan ágúst.

„Við erum ósammála um hvort leyfa skuli virknina við og í Silfru og þar með líka um hvort að hún ógni veru þjóðgarðsins á Heimsminjaskránni eður ei. Lít á hana sem nægilega örugga eftir úttekt og sérfræðivinnu EFLU, endurbætur (sem skila sér í skerfum) og þolmarkagreiningu plús eftirlit með framkvæmdum næstu ára og áhrifum virkninnar,“ skrifar Ari til Jónasara.

Kveðst Ari líta á starfsemina í Silfru „sem einstæða náttúruupplifun sem megi leyfa á þennan hátt - ekki ósvipað og heimsóknir í
Raufarhólshelli eftir aðgerðir þar, Þríhnúkahelli, Vatnshelli á Snæfellsnesi, ísgöngin í Langjökli og raunar margt fleira hér á landi - á friðuðum eða ófriðuðum landsvæðum. Allt svo lengi sem ákvörðuðum takmörkunum á ýmsum stigum aðgengis og framkvæmda er haldið innan sjálfbærra marka,“ segir í póstinum til Jónasar.

„Við Ari tölum bara í kross; ég tala um náttúrverndarsjónarmið og hann um bissness,“ segir Jónas við Fréttablaðið.

Í bréfi sínu til Unesco varar Jónas við því aðef Alþjóðaráð um minnisvarða og sögustaði, ICOMOS, telji þrátt fyrir þau atriði sem hann bendir á, að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum uppfylli skilyrði sem þarf til að vera á Heimsminjaskrá þá megi gera ráð fyrir að önnur ferðaþjónustufyrirtæki mun selja afþreyingu á Þingvöllum og vísa til þess að staðurinn sé á Heimsminjaskrá. „Við getum ekki sætt okkur við þetta lengur,“ segir Jónas Haraldsson.