Siggi Hall matreiðslumeistari segir skyrdellu skollna á í Frakklandi, Frakkarnir séu óðir í skyr.Hann er einn skipuleggjenda Food & Fun hátíðarinnar sem stendur yfir í Reykjavík.

Food & fun stendur nú sem hæst. Þrettán veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í þessari árlegu hátíð matreiðslumanna sem haldin er í fyrsta sinn síðan 2020. Siggi Hall matreiðslumeistari er einn skipuleggjenda. Hann segir að upphaflega hafi fleiri staðir ætlað að taka þátt. „Við vorum fimmtán en svo kom þessi ógn, ógnin. Verkbann og allt í vitleysu, og þá voru staðir sem drógu sig út og breyttu aðeins um kerfi en eru samt sem áður með,“ segir Siggi í samtali við Fréttavaktina á Hringbraut.

Siggi segist njóta hátíðarinnar, þrátt fyrir annir. „Já, ég geri það alveg. Ég er svona dálítið teygður og tættur út um allt og reyni að fara og kíkja við á flestum stöðunum,“ segir hann. „Ég sest ekki niður og tek eina kvöldstund, voða huggulegt með familíunni. En ég nýt þess mjög vel og þetta verða allt vinir manns,“ segir Siggi.

„Þetta verður að Food and fun fjölskyldunni, þeir sem eru að koma. Fólk tengist mikið. Og svo tengjast veitingastaðirnir erlendu kokkunum. Það er mjög gott úrval af erlendum kokkum núna frá góðum stöðum. Svo verður unga fólkið kannski gestir þar í einhvern tíma. Þau læra og taka með sér þekkinguna heim og verða miklu flinkari.“

Siggi leggur áherslu á að útlendingar sem sækja hátíðina heim taki með sér upplifunina af íslenskum afurðum í hæsta gæðaflokki.

Skyr flottast af öllu

„Það er allt brjálað í Frakklandi út af skyri. Það er skyrdella í Frakklandi. Þeir voru að segja mér, Frakkar sem eru hérna. Skyr, skyr, skyr. Flottast af öllu er að borða skyr í Frakklandi í morgunmat. Þeir borga átta evrur fyrir skyrdósina í staðinn fyrir þrjár evrur fyrir jógúrt.“

Af hverju erum við ekki búin að merkja þetta, eins og Champagne héraðið merkir kampavín sem er ekki kampavín nema það komi frá Champagne héraði?

„Ég held að við séum búin að gera það einhvers staðar. Svo vorum við að gefa þeim osta í gær og þeir segja, vá eru þetta íslenskir ostar? Ofsalega eru þeir góðir. Þannig að þetta er allt í lagi,“ segir Siggi.

Það er skyrdella í Frakklandi. Þeir voru að segja mér, Frakkar sem eru hérna. Skyr, skyr, skyr. Flottast af öllu er að borða skyr í Frakklandi í morgunmat.

„Við þurfum ekkert að hafa neina minnimáttarkennd yfir okkar framleiðslu... nema sumu.“

Siggi fullyrðir að yfirleitt sé góður matur á íslenskum veitingastöðum. „Þetta er gamalt í kokkunum og veitingamönnunum, komplexar í gamla daga af því að það var aldrei neitt til,“ segir hann.

„Það var hægt að vera með lambakjöt og þá fóru þeir að vera með lambalæri í bernaise, sem er bara séríslenskt dæmi. Það var alltaf verið að gera eitthvað með komplexa og viljann að vopni. Við erum alveg jafngóðir og hinir þó að við eigum ekkert nema lambakjöt. Svo fatta þeir að lambakjötið er besta lambakjöt í heimi og bara besta kjöt í heimi, og þá boostast þetta upp. Og svona heldur þetta áfram.“

Siggi Hall ræddi við Margréti Erlu Maack í Fréttavaktinni á Hringbraut miðvikudaginn 1. mars 2023. Hægt er að horfa á innslagið í spilaranum hér að neðan.