Málefni rafmynta voru rædd á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær. Þeir þingmenn sem rætt var við telja þörf á að skoða lagarammann í kringum framleiðslu rafmynta, sem um 5 prósent íslenskrar orkuframleiðslu er notaður til að búa til. En eins og Fréttablaðið greindi frá í gær streyma rafmyntir frá íslenskum gagnaverum út í heim eftirlitslaust.

Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, hefur fylgst með málefnum rafmynta en þá aðallega í skattalegu tilliti. Hún segir rafmyntir falla undir eftirlitsramma þeirrar löggjafar er lýtur að peningaþvætti og fleiru sem komið hefur að utan. „Hvað framleiðsluna varðar þá er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða,“ segir hún og tekur undir að það sé ábyrgðarhluti að heimila framleiðslu gjaldeyris sem notaður sé í ýmsum tilgangi, hugsanlega ekki alltaf góðum.

Segir hún að hingað til hafi verið einblínt á neytendaverndina hvað varðar rafmynt. Hafa meðal annars Seðlabankinn, Póst- og fjarskiptastofnun, Neytendastofa, Tollstjóri og fjármálaráðuneytið gefið út viðvaranir við notkun hennar.

„Það er ekki ólöglegt að framleiða rafmynt í dag og ég hef ekki séð rök fyrir banni. Spurningin er hvort þörf sé á frekari lagaramma,“ segir Bryndís. „Það þarf að skoða hvað er hægt og hvað er eðlilegt, nóg erum við nú að fylgjast með eðlilegri bankastarfsemi. Ef það er hola þarna þarf að fylla upp í hana.“

Þórarinn Ingi Pétursson, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, segir að fyrst þurfi nefndarmenn að átta sig á hvað rafmynt sé og hvað hún getur gert, áður en farið verði í hugsanlega lagasetningu. „Sá tími er kominn að við þurfum að skoða þessa hluti,“ segir Þórarinn. Hann telur annir annarra verkefna skýra hvers vegna það hafi ekki verið gert fyrr.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir þörf á skýrari lagaramma og meiri þekkingar innan stjórnkerfisins á rafmynt og framleiðslu hennar, án þess að loka fyrir hana. „Mér finnst mjög ámælisvert að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að eiga samtal eða sýna frumkvæði varðandi stefnumótun í þessum málaflokki,“ segir hún. Auk þess að lítið gagnsæi ríki um framleiðsluna geti hún haft áhrif á raforkuþörf og verð hér á landi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir þörf á skýrari lagaramma og meiri þekkingar innan stjórnkerfisins á rafmynt og framleiðslu hennar.

„Fólk hefur ýtt þessu á undan sér af því að þetta er stórt og mikið tæknimál. Það kann líka að vera að stjórnvöld hafi vanmetið umfangið,“ segir Þorgerður. „En nýlegar umfjallanir um þetta hafa sýnt hversu umsvifin eru mikil í jafn ógagnsæjum og órekjanlegum viðskiptum og rafmynt er.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir þörf á skilgreiningu rafmyntar og hugsanlega sérlög. Hvort þetta sé gjaldmiðill, hlutabréf, vara eða annað og hvort Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa eða aðrir eigi að sinna eftirliti. Hann hefur í nokkur skipti rætt rafmyntir á þinginu. „Þetta getur haft miklar afleiðingar í för með sér,“ segir Smári. „Þetta er flókið en að skýla sér ábak við vanþekkingu er ekki lögmæt afsökun.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir vanþekkingu á málefninu enga afsökun.
Mynd/Brynjar Gunnarsson

Fyrir utan allt það sem tengist viðskiptunum sjálfum verði að huga að náttúruverndarþættinum. Rafmyntir séu unnar með því að reikna svokölluð hakkaföll, sem í upphafi fyrir rúmum áratug var hægt að gera með venjulegum örgjörvum, en í dag eru reiknuð um 200 milljón föll á sekúndu. Það er ekki aðeins framleiðslan sem útheimtir orku heldur einnig færslurnar. „Hver færsla notar 900 kílówött, um það bil það sem stórt hús í Bandaríkjunum notar á einu ári,“ segir hann. „Ég tel að þetta sé tilefni til þess að ræða auðlindaskatt. Fimm prósent orkunnar fer í þetta en samfélagið nýtur ekki góðs af því í samhengi við umfangið.“ Hefur Smári, sem fylgist vel með, ekki orðið var við að Íslendingar sjálfir noti rafmyntir í viðskiptum í stórum stíl.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingar, segir flokkinn leggja áherslu á aukið eftirlit með viðskiptum með rafmynt. „Það er í höndum fyrirtækjanna sjálfra, sem stunda svokallaðan námugröft á rafmynt, að starfa innan ramma laganna en það er ekki námugröfturinn sjálfur sem er ólöglegur heldur sum viðskipti sem eru stunduð með þessum gjaldmiðlum,“ segir hann. „Sala og kaup á barnaklámi, viðskipti með fíkniefni og fjármögnun hryðjuverkasamtaka eru ólögleg, hvort sem það er með rafmynt, íslenskum krónum eða öðrum hætti. Tæknin í sjálfu sér er ekki vond, en notkun hennar vekur sannarlega margar siðferðislegar spurningar.“

Hann segir umhugsunarvert að raforkan fari í framleiðslu sem ekki skili hefðbundnum verðmætum, vörum eða hugverkum. Skortur á gagnsæi geri yfirvöldum einnig erfitt fyrir. Stjórnmálamenn ættu ekki að hræðast umræðuna þó tæknin sé ný og kannski flókin.