Yfirmaður bólusetningaráætlunar hjá Lyfjastofnun Evrópu, Marco Cavaleri, sagði í viðtali við ítalska blaðið Il Messaggero að það séu skýr tengsl á milli bóluefnis AstraZeneca og fágætrar týpu blóðtappa hjá fólki sem hefur verið bólusett með efninu. Lyfjastofnun Evrópu mælir enn með því að fólk fái bólusetninguna og segir að ávinningurinn sé meiri en áhættan.
Cavaleri sagði að það væru skýr tengsl á milli bóluefnisins og blóðtappanna en að það væri enn óljóst hvað valdi þeim. Hann sagði að það væri meiri hætta á meðal yngra fólks á blóðtappa í heila samanborið við fjöldann.
Hann taldi að Lyfjastofnun Evrópu myndi senda frá sér tilkynningu um málið í dag. Síðasta tilkynning sem stofnunin sendi frá sér um málið var send út 31. Mars og þar segir að ávinningurinn sé meiri en áhættan og var mælt með því að notkun bóluefnisins yrði ekki hætt. Þar segir að tengslin séu ekki sönnuð.
Cavaleri segir í viðtalinu að mat evrópsku lyfjastofnunarinnar á AstraZeneca sé langt frá því að vera búið og það sé undir hverju landi komið að ákveða hvaða aldurshópar fái bóluefnið.
„Mín skoðun er sú að við getum sagt núna að það séu bein tengsl við bóluefnið. Hval veldur þessari tengingu vitum við hins vegar ekki,“ segir hann í viðtalinu og að það þurfi að skoða betur tengslin blóðtappa í heila.
Spurður hvort hann teldi ávinning enn meiri en áhættuna svaraði hann því játandi en að það þurfi að skoða betur áhrifin á mismunandi aldurshópa.
Notkun á bóluefninu var hætt tímabundið hér á landi í mars en bólusetning hófst aftur fyrir páska á fólki sem er 70 ára og eldra.