Yfir­maður bólu­setningar­á­ætlunar hjá Lyfja­stofnun Evrópu, Marco Cavaleri, sagði í við­tali við ítalska blaðið Il Messag­gero að það séu skýr tengsl á milli bólu­efnis AstraZene­ca og fá­gætrar týpu blóð­tappa hjá fólki sem hefur verið bólu­sett með efninu. Lyfja­stofnun Evrópu mælir enn með því að fólk fái bólu­setninguna og segir að á­vinningurinn sé meiri en á­hættan.

Cavaleri sagði að það væru skýr tengsl á milli bólu­efnisins og blóð­tappanna en að það væri enn ó­ljóst hvað valdi þeim. Hann sagði að það væri meiri hætta á meðal yngra fólks á blóð­tappa í heila saman­borið við fjöldann.

Hann taldi að Lyfja­stofnun Evrópu myndi senda frá sér til­kynningu um málið í dag. Síðasta til­kynning sem stofnunin sendi frá sér um málið var send út 31. Mars og þar segir að á­vinningurinn sé meiri en á­hættan og var mælt með því að notkun bólu­efnisins yrði ekki hætt. Þar segir að tengslin séu ekki sönnuð.
Cavaleri segir í við­talinu að mat evrópsku lyfja­stofnunarinnar á AstraZene­ca sé langt frá því að vera búið og það sé undir hverju landi komið að á­kveða hvaða aldurs­hópar fái bólu­efnið.

„Mín skoðun er sú að við getum sagt núna að það séu bein tengsl við bólu­efnið. Hval veldur þessari tengingu vitum við hins vegar ekki,“ segir hann í við­talinu og að það þurfi að skoða betur tengslin blóð­tappa í heila.

Spurður hvort hann teldi á­vinning enn meiri en á­hættuna svaraði hann því játandi en að það þurfi að skoða betur á­hrifin á mis­munandi aldurs­hópa.

Notkun á bólu­efninu var hætt tíma­bundið hér á landi í mars en bólu­setning hófst aftur fyrir páska á fólki sem er 70 ára og eldra.

Greint er frá á In­dependent.