Nara Walker, áströlsk kona, sem var sakfelld fyrir að hafa bitið af odd af tungu fyrrverandi eiginmanns síns og afplánaði þriggja mánaða dóm, hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Nara hefur ávallt haldið því fram að hún hafi aðeins beitt hann ofbeldi í nauðvörn. Hún taldi raunverulega að hann hafi ætlað að myrða hana þetta kvöld. Nara hlaut 18 mánaða dóm fyrir ofbeldi sem hún beitti eiginmann sinn fyrrverandi. Þrjá mánuði afplánaði hún á Hólmsheiði og á Vernd. Nara afplánar hina fimmtán á skilorði.
Nara segir í samtali við Fréttablaðið að það taki dómstólinn eflaust um sex til átta mánuði að ákveða hvort þau taki mál hennar til efnislegrar meðferðar. Hún segir það eflaust þó góðs viti að í júní fékk hún bréf frá dómstólnum þar sem að þau óskuðu frekari upplýsinga frá henni og málinu var formlega gefið málsnúmer.
Þar er þess einnig óskað að dómstóllinn verði látin hvernig mál Nöru gegn fyrrverandi eiginmanni hennar þróist. Nara kærði hann fyrir það ofbeldi sem hann beitti hana um árabil en rannsókn málsins var látin falla niður hjá lögreglunni. Nara hefur kært þá ákvörðun og er það undir ríkissaksóknara að ákveða hvort að mál hennar verði tekið upp að nýju til rannsóknar. Dómstóllinn biður því um öll gögn hvað varðar framþróun máls Nöru er varðar ásakanir hennar gegn fyrrverandi eiginmanni hennar.
Segir að lokum í bréfinu að dómstóllinn muni, eins fljótt og auðið er, skoða mál hennar miðað við þau gögn sem hafa verið lögð fram.
„Ég er mjög ánægð með bréfið sem ég fékk því að ég veit að Mannréttindadómstóll Evrópu tekur aðeins við hluta af þeim málum sem þau fá. Ef þau samþykkja ekki að taka málið til efnislegrar meðferðar þýðir það samt ekki að það hafi ekki verið farið rangt að, heldur að það vanti kannski eitthvað upp á,“ segir Nara.

Aldrei álitin saklaus og aldrei tekið tillit til heimilisofbeldisins
Í kærunni eru tiltekin brot ríkisins á rétti Nöru vel útskýrð en þau eru talin varða við 3. 6., 8., og 14. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu.
Þriðja grein sáttmálans varðar bann við pyndingum. Í kæru Nöru segir að ríkið hafi brugðist henni þegar þeim tókst ekki að vernda hana fyrir „niðurlægjandi meðferð“ sem hún varð fyrir af hendi lögreglu eftir að hún tilkynnti fyrst um atvikið. Þá er einnig minnst á að lögreglan hafi ávallt litið á hana sem geranda en ekki fórnarlamb, án þess að nokkurn tíma rannsaka það. Auk þess var henni ekki leyft að hitta lækni, þrátt fyrir áverka sem hún hlaut af hendi fyrrverandi eiginmanns síns.
Atvikið sem um ræðir hér í greininni átti sér stað þann 1. nóvember árið 2017. Þá höfðu þau dvalið hér vegna vinnu mannsins hennar og höfðu farið út að skemmta sér. Atvikið átti sér stað þegar þau sneru aftur í íbúðina sem þau dvöldu í. Tveir voru í för með þeim, amerískur túristi og íslensk kona, sem nú er kærasta fyrrverandi eiginmanns Nöru. Fyrrverandi eiginmaður Nöru er ekki lengur á Íslandi.
Sjötta grein sáttmálans varðar rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Í kæru Nöru segir að Nara hafi ekki hlotið sanngjarna málsmeðferð vegna þess að aðeins var litið til þessa eina atviks, þetta eina kvöld, en ekki til sögu þeirra og þess ofbeldis sem Nara segir að maðurinn hennar hafi beitt hana um árabil. Þá segir einnig að Nara hafi aldrei í málinu verið álitin saklaus uns sekt hennar var sönnuð. Lögreglan hafi ávallt talið hana eina grunaða og ekki tekið tillit til ofbeldis sem hún var beitt sama kvöld af fyrrverandi manni sínum og konu sem nú er kærasta hans.
Aldrei upplýst á hennar eigin tungumáli
Þá segir einnig að Nara hafi aldrei verið upplýst um málið eða ákæruna gegn henni á hennar eigin tungumáli, sem er enska. Nara hélt allan tímann sem rannsókn málsins fór fram að einnig væri verið að rannsaka ásakanir hennar gegn eiginmanni hennar fyrrverandi. Hefði hún skilið íslensku, eða verið upplýst á hennar eigin tungumáli, hefði hún getað séð í bæði fjölmiðlum og annars staðar að hún var ávallt ein grunum um ofbeldi þetta kvöld.
Áttunda grein sáttmálans varðar friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Í kærunni segir að ríkinu hafi ekki tekist að vernda rétt Nöru til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sem fórnarlamb heimilisofbeldis. Hún hafi verið send aftur til eiginmanns síns þegar hún var leyst úr varðhaldi. Síðan hafi dómstólum ekki tekist að vernda hana sem fórnarlamb slíks ofbeldis, heldur notað lög sem eiga að vernda fólk í slíkri stöðu, gegn henni. Þá er einnig tekið fram að ríkinu hafi ekki tekist að vernda líkamlega og andlega friðhelgi hennar.
Bent er ítrekað í kæru Nöru á ákvæði Istanbúl-samningsins, sem er samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Samningurinn var fullgiltur hér á Íslandi í apríl í fyrra. Í mars í fyrra var fyrsti áfangi fullgildingarinnar innleiddur með lagabreytingu á almennum hegningarlögum. Þar segir nú að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi sem greinir á um í Istanbúl-samningnum.
Þá er að lokum kveðið á um að brotið hafi verið á 14. grein mannréttindasáttmálans sem fjallar um bann við mismunun. Nara telur að brotið hafi verið á henni sem konu af erlendum uppruna án formlegs dvalarleyfis. Nara telur að öðruvísi hefði verið tekið á máli hennar hefði hún verið af öðrum uppruna og kyni og ef hún hefði talað annað tungumál, það er íslensku.
Var í fyrsta skipti nú að lesa sjálf um málið í heild sinni
Eins og fyrr segir er Nara áströlsk. Fyrrverandi maðurinn hennar er einnig erlendur ríkisborgari. Þegar þau voru saman bjuggu þau í Bretlandi, en dvöldu reglulega í lengri tíma á Íslandi á árabilinu 2016 til 2017 vegna vinnu hans hjá íslensku fyrirtækinu.
Nara segir að málsmeðferð hennar hafi frá upphafi ekki verið réttlát og segir að sem dæmi hafi hún aldrei lesið um málið sitt í heild á ensku, fyrr en núna í kærunni sem lögfræðingur hennar útbjó og afhenti Mannréttindadómstólnum.
„Þannig ég er í raun í fyrsta skipti núna að lesa um málið í heild sinni. Það sem stendur upp úr fyrir mig var að ég varð að kæra manninn minn, en lögreglan kærði mig, og það fannst mér skrítið. Vegna þess að ég hélt allan tímann að lögreglan myndi rannsaka allt málið, en augljóslega var það ekki gert, og kom fram í fréttatilkynningu lögreglunnar sem var send á fjölmiðla á meðan ég var enn í haldi lögreglunnar með meiðsl sem ég fékk enga læknisaðstoð við," segir Nara.
Hún segir að það sem mest hafi komið henni á óvart er hvernig lögreglan skoðaði ekki alla hluta málsins, og þá sérstaklega hennar sögu og það ofbeldi sem hún hafði áður verið beitt.
„Ef þau hefðu fylgt verklagi og skoðað allt þá hefði ég kannski ekki verið sakfelld, heldur viðurkennt að ég var að verja mig," segir Nara.
Þannig ég er í raun í fyrsta skipti núna að lesa um málið í heild sinni. Það sem stendur upp úr fyrir mig var að ég varð að kæra manninn minn, en lögreglan kærði mig, og það fannst mér skrítið
Hún segir í raun að öll meðferð og framkoma lögreglunnar, réttarkerfisins og fangelsiskerfisins sé það sem hún sé nú að berjast gegn
„Öll meðferð kerfisins á mér, allt frá lögreglunni og til dómstólsins, og svo það sem kemur á eftir. Sem er til dæmis brottvísunarmál mitt sem ég er enn að berjast gegn og óljós óvissa þess af hverju ég hef ekki fengið vegabréfið mitt til baka. Því ég veit ekki hvort það er út af brottvísunarmálinu eða því ég er á skilorði. Það hefur enginn sagt mér neitt opinberlega. Ég var á Vernd eftir að ég var á Hólmsheiði og ég bara fór. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera eftir það, en ég fékk engar leiðbeiningar. Ég bara fór," segir Nara.
Hún segir að henni hafi nú verið alls haldið hér í 20 mánuði þar sem hún hefur ekki getað með neinu móti aflað sér tekna eða lifað eðlilegu lífi.
„Það er mjög langur tími til að geta ekki lifað lífinu eins og venjuleg manneskja. Ég get ekki lifað venjulegu lífi. Ég veit aldrei hvað er að fara að gerast. Ég á ekki pening til að fara til læknis, jafnvel þótt um sé bara að ræða venjulega skoðun hjá kvensjúkdómalækni, eða eitthvað þannig. Mér líður eins og ég sé í núna í ofbeldishring [e. Cycle of abuse] með kerfinu, í stað eiginmanns míns. Það rann upp mér fyrir eftir að ég skilaði inn umsókninni til dómstólsins að eftir fjóra mánuði eru tvö ár frá því að ég mátti vinna, og lifa lífinu sem venjulegur borgari. Ég er bara að bíða og get ekki planað neitt því ég veit ekkert hvar ég verð," segir Nara.
Nara hefur sótt um dvalarleyfi hér á Íslandi. Nara er alþjóðlegur listamaður og til að geta ferðast og unnið verður hún að vera með fast dvalarleyfi. Áður en þetta gerðist allt var Nara mjög virk á alþjóðlegum vettvangi og jafnvel sýndi á mörgum stöðum í einu. Alls hefur hún sýnt í tólf löndum.
„Ef þú lítur á ferilskránna mína áður en þetta gerðist allt. Ég var stundum að sýna á mörgum stöðum í heiminum í einu. Frá því að þetta gerðist hef ég sýnt tvö vídjóverk, því ég má ekki gera neitt. auk þess tekur málið alla mína orku þannig að það er erfitt fyrir mig að vinna úr hlutum í eðlilegu umhverfi. Að skila inn umsókninni til dómstólsins var því mikill léttir. Að hluta til vegna þess að ég sá í nýju ljósi þá meðferð sem ég hef orðið fyrir/verið beitt frá upphafi og ég veit að þetta er ekki rétt,“ segir Nara.
Viðbrögð lögreglunnar eins og að verða fyrir árás á ný
Hún segir sem dæmi frá því þegar hún fór til lögreglunnar að bæta við ákæru sína gegn eiginmanni sínum fyrrverandi.
„Þegar ég fór til lögreglunnar til að bæta við ákæru mína gegn manninum mínum, sem tók ár að bæta við, sögðu þau mér að vegna þess ég var dæmd þá myndu þau ekki kæra hann, sem er ekki rétt. Þau sögðu mér að það væru engin sönnunargögn, þrátt fyrir að hann hafi játað fyrir dómi þá mörgu hluti sem hann gerði mér. Ég er með læknisvottorð sem er í samræmi við atburði eins og ég lýsi þeim. Eftir að ég bætti við kæruna var ég spurð margra hræðilegra spurninga. Ég gekk næstum út eftir klukkutíma, því það var eins og að vera aftur fyrir árás eins og þau voru að spyrja mig,“ segir Nara.
Lögreglan tjáði lögfræðingi Nöru að lögreglan í Bretlandi ætlaði að taka yfir rannsókn málsins, sem hún segir að hafi verið lygi, og hún hafði átt i samskiptum við bresku lögregluna sem sannaði það. Þá vildi lögreglan að hún afhenti þeim símann sinn svo þau gætu halað niður öllum gögnum af honum.
„Ég held að það sem gerðist hafi verið að lögreglan kom í íbúðina þetta kvöld, fylgdi ekki verklagi, og vegna þess að þau gerðu það ekki þetta kvöld þá er engin leið fyrir dómstólinn að sjá þetta sem nauðvörn því lögreglan reyndi aldrei að safna sönnunargögnum sem myndu sýna fram á að þetta hefði verið nauðvörn. Þau yfirheyrðu til dæmis aldrei nágrannana sem ég sagði þeim að heyrðu hvað gerðist. Þau skoðuðu aldrei stigann þar sem ráðist var á mig og Ameríkanann. Þetta var bara einhliða og þau sögðu mér að ég væri sek, jafnvel þótt að ég hafi sagt þeim um leið og þau komu, sem oft hefur verið sagt frá, að ég væri fórnarlambið," segir Nara.

Rétti tíminn fyrir samtal um heimilisofbeldi eftir #MeToo
Nara telur einnig að núna sé rétti tíminn til að eiga þetta samtal.
„#MeToo bylgjan var að hefjast um leið og árásin átti sér stað árið 2017. Og ég hef séð að mál mitt og þetta samtal gerist á sama tíma og hvernig fólk hefur orðið meðvitaðra á þessum tíma. Hvernig fólk lítur ekki lengur undan heimilisofbeldi og þess vegna trúi ég því að dómstóllinn muni taka málið að sér. Þetta er mikilvægt mál og þetta er rétti tíminn fyrir þetta mál, eins og staðan er í heiminum í dag,“ segir Nara.
#MeToo bylgjan var að hefjast um leið og árásin átti sér stað árið 2017. Og ég hef séð að mál mitt og þetta samtal gerist á sama tíma og hvernig fólk hefur orðið meðvitaðra á þessum tíma.
Hún segir að hún skynji meðal fólks að það sé tilbúið að eiga þetta samtal. Bæði karlmenn og konur hafi haft samband við hana sem hafi kynnt sér mál hennar, eða lesið dóm hennar. Þau telji það skýrt að það sé margt sem ekki hafi verið rétt gert í máli hennar.
„Fólk hefur áhuga á þessu. Kannski vegna þess að það er tabú í kringum heimilisofbeldi, en það er að verða sjáanlegra og við skiljum nú betur að fólk sem við þekkjum, við sjálf eða aðrir fjölskyldumeðlimir, hafa verið beitt slíku ofbeldi. Karlmenn hafa komið til mín og sagt mér frá því að þeir geri sér grein fyrir því að mæður þeirra hafa verið beittar ofbeldi og ég held að það sé mjög mikilvægt að karlmenn fari að koma auga á það líka, því það þýðir að samtalið getur átt sér stað. Það er þá ekki alltaf bara einhver kona í blaðinu. Það er einhver sem þeir þekkja,“ segir Nara.
Heimilisofbeldi oft dulið og erfitt að bera kennsl á það
Hún segir að annað sé að heimilisofbeldi sé oft svo dulið að konur jafnvel geri sér ekki grein fyrir því að þær séu beittar ofbeldi í sambandinu sem þær eru í. Hún segir að á meðan hún hafi verið með fyrrverandi eiginmanni sínum hafi hún verið spurð, en hafi sjálf ekki borið kennsl á að um ofbeldi væri að ræða fyrr en hann byrlaði henni sýru.
Nara segir að það megi líklega rekja til þess að faðir hennar hafi verið ofbeldisfullur þegar hún ólst upp og því sé hennar þröskuldur hærri en annarra. Það hafi því ef til vill þurft meira til en undir „venjulegum kringumstæðum“.
„Minn þröskuldur er ólíkur annarra. Minn er hærri. Faðir minn beitti mig líkamlegu og andlegu ofbeldi og þannig átti ég erfitt með að bera kennsl á andlegt og líkamlegt ofbeldi sem að maðurinn minn beitti mig. Maðurinn minn beitti mig einnig kynferðislegu ofbeldi, en það átti ég líka erfitt með að þekkja sjálf. Það getur verið svo erfitt að sjá sjálf í svo nánu sambandi hvenær er verið að beita þig kynferðislegu ofbeldi, bæði vegna þess að sambandið er svo náið en líka vegna samfélagslegs þrýstings. En um leið og hann gerði eitthvað sem að faðir minn gerði ekki, eins og að byrla fyrir mér, þá sá ég að það var eitthvað að. Fyrri reynsla skiptir því miklu máli," segir Nara.
Gerði sér grein fyrir ofbeldinu þegar hún las um ofbeldi í bækling
Nara segir að hún hafi loks gert sér grein fyrir því að um ofbeldissamband hefði verið að ræða í einni heimsókn hennar til Kvennaathvarfsins. Henni hafi verið réttur bæklingur um ofbeldi þar sem því er lýst hvað teljist til ofbeldis.
Mér leið svo illa því ég hafði aldrei áður sært neinn með þessum hætti. Ég lít ekki á mig sem ofbeldisfulla manneskju, og þetta var maður sem ég elskaði
„Þá small það saman, og ég sá hvernig ofbeldið byrjaði þegar hann dró mig inn í sambandið og einangraði mig og hélt mér á tánum með lygum. Það var ógnvekjandi því ég sá allt í einu fjögur og hálft ár fyrir mér í einu,“ segir Nara.
Hún segir að þegar hann byrlaði fyrir henni hafi hún ætlað að fara frá honum, en hafi svo farið aftur til hans. Svo hafi „atvikið“, eins og hún sjálf vísar til kvöldsins örlagaríka, átt sér stað. Hún segir að henni hafi lengi liðið illa yfir því sem gerðist þetta kvöld og hvernig hún hafi þurft að beita ofbeldi sjálf til að bjarga sér.
„Mér leið svo illa því ég hafði aldrei áður sært neinn með þessum hætti. Ég lít ekki á mig sem ofbeldisfulla manneskju, og þetta var maður sem ég elskaði,“ segir Nara.
Hún segir að það þurfi að eiga sér stað umræðu um hvað teljist til ofbeldis. Bæði fyrir konur og karla. Hún telur að karlmenn geri sér oft ekki grein fyrir því að hegðun þeirra flokkist sem ofbeldi. Nara hvetur í lokin konur til að kynna sér lýsingar á heimilisofbeldi og hvar sé hægt að fá aðstoð. Hún segir að hún haldi úti heimasíðunni No Woman Aloneþar sem hún birtir reglulega efni til að lesa.
Kallað eftir því að Nöru verði veitt sakaruppgjöf
Þann 12. júní skilaði Nara inn til Alþingis undirskriftalista sem um 43 þúsund einstaklingar höfðu skrifað undir. Þar var kallað eftir því að hún yrði leyst úr haldi eða ekki fangelsuð. En einnig almennt fjallað um kynbundið ofbeldi. Kallað hefur verið eftir því að forsetinn veiti henni sakaruppgjöf.
„Undirskriftalistinn sem ég skilaði inn til til Alþingis er kannski mín saga, en hún endurómar sögu margra kvenna. Listinn endurspeglar líka sögur þeirra og kerfislægt óréttlæti um allan heim. Ég vona því að Alþingi taki þetta alvarlega því það þarf að breyta lögum. Það væri hægt að nýta mál mitt til að knýja fram lögfestingu Istanbúl samningsins og innleiða hann. Það væri frábært og eitthvað fallegt sem kæmi út úr þessu hræðilega máli," segir Nara.
Nara segir að hún hafi ekki heyrt í neinum stjórnmálaflokki eða stjórnmálamanni og segir að það hafi ekki verið svo margir viðstaddir þegar hún afhendi listann. Hún segir að hún kunni vel að meta að einhver hafi tekið á móti listanum en veltir því fyrir sér hvort að fámenn mæting endurspegli mögulega þann litla áhuga sem kynbundið ofbeldi fær pólitískt séð.
Nara segir að margar konur hafi haft samband við hana, bæði hér og erlendis og það hafi hjálpað henni.
„Það hefur hjálpað mér andlega, því að mörgu leyti er ég enn fangi, því ég má ekki fara og fjárhagslega er ég fangi. Stundum fer ég aftur í það andlega ástand. Í stað þess að fara áfram, vinna úr því og jafna mig á því,“ segir Nara.
Hún segir að það sé einnig erfitt að vera svo langt í burtu að heiman og geta ekki séð fjölskyldu sína. það geri það enn erfiðara að takast á við áfallið.
Hvaða vonir hefurðu til málsins fyrir Mannréttindadómstólnum? Veistu til þess að dómstóllinn hafi tekið álíka mál að sér?
Nara segir að dómstóllinn hafi tekið svipað mál árið 2017 og að Evrópuráðið hafi undanfarin ár lagt meiri áherslu á að uppræta heimilisofbeldi og annað kynbundið ofbeldi. Þau hafi útbúið sérstök skjöl um kynbundið ofbeldi og jafnrétti. Þá sé einnig hægt að finna í dómssögu dómstólsins fjölda mála þar sem fjallað er um heimilisofbeldi.
„Ég trúi því að ef MDE myndi taka þetta mál að sér þá væri það mjög skýr skilaboð til ríkja heimsins um að það sem er að gerast hér á Íslandi. Í landi sem er álitið feminísk útópía og höfuðborg jafnréttis, en er samt með hæsta hlutfalla nauðgana miðað við höfðatölu. Ef að Mannréttindadómstóll Evrópu myndi beina sjónum sínum hingað vegna heimilisofbeldis myndi það sýna að það sem gerist hér getur sannarlega gerst annars staðar, og er líklega verra þar. Ég held að það væri því skýr skilaboð til ríkja heimsins um að taka betur á slíkum málum. Ég trúi að þetta sé gott mál. Það er pólitískt og getur sýnt með sterku móti fram að þau segi nei við kynbundu ofbeldi Lögfræðingar mínir hafa sett málið fram með skýrum hætti í umsókninni og ég er þakklát þeim. Þau hafa verið mjög hjálpsöm," segir Nara.
Nara segir að vegna þess að hún hafi ekkert mátt vinna hafi hún ekki enn getað greitt lögfræðingum sínum. Hún ætli því nú að hefja söfnun.
Nánari upplýsingar um söfnun Nöru er að finna hér, á GoFundMe, þar sem hægt er að styðja hana.