Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, segir samtökin fagna nýju frumvarpi um að banna bælingarmeðferðir samkvæmt lögum.

Fréttablaðið greindi frá málinu í gær, en verði frumvarpið að veruleika mega þeir sem að meðferðunum standa, eða fá fólk í þær, eiga von á allt að fimm ára fangelsi.

„Ég trúi ekki öðru en að þetta fljúgi í gegn og vænti stuðnings allra flokka. Hinsegin málefni hafa verið mjög þverpólitísk á Íslandi og ég vona að það haldi bara áfram,“ segir Þorbjörg, spurð hvort hún eigi von á að frumvarpið verði samþykkt.

„Þetta er auðvitað viðurkenning á því hversu mikið ofbeldi þessi meðferð er, og gefur fólki tækifæri til að leita réttar síns verði það fyrir þessu. Það er mjög mikilvægt að geta gert það,“ segir Þorbjörg jafnframt.

„Að sama skapi sendir þetta skýr skilaboð út í samfélagið að þetta sé ekki liðið,“ bætir hún við.