Mark­mið heim­sóknar Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra til Sví­þjóðar í Stokk­hólmi fyrr í vikunni var að kynna sér árangur sænskra nem­enda í PISA könnunar­prófum, ásamt þær áherslur sem Svíar lögðu upp með eftir að lesskilningur nemenda hrakaði verulega.

Sam­kvæmt frétta­til­kynningu frá Mennta­mála­ráðu­neytinu fundaði Lilja með Önnu Ekst­röm, mennta­mála­ráð­herra Sví­þjóðar, og fór yfir þær um­fangs­miklu að­gerðir sem Svíar fóru í eftir að árangri sænskra nem­enda í prófunum hrakaði veru­lega árið 2012. Með ein­beittum vilja tókst Svíum að snúa blaðinu við og náðu nem­endur mjög góðum árangri í prófunum 2018.

Lesskilningur íslenskra nemenda fer versnandi

Niður­stöður PISA-könnunarinnar voru kynntar hér­lendis í desember á síðasta ári en sam­kvæmt þeim fer árangur ís­lenskra nem­enda versnandi þegar kemur að les­skilningi.

Lilja sagði niður­stöðurnar ekki koma sér á ó­vart og boðaði hún víð­tækar að­gerðir til þess að bregðast við þeim.

„Við erum búin að greina þetta og erum að fara í ýmsar að­gerðir. Við ætlum meðal annars að fjölga móður­máls­tímum og leggja stór­aukna á­herslu á ís­lensku í öllum greinum,“ sagði Lilja í kjöl­far niður­staðanna í
desember.

Mikilvægt að foreldrar nemenda hafi þekkingu á námskránni

Þá sagði Lilja einnig að horfa þyrfti til landa sem hafi náð góðum árangri í PISA og nefndi hún Sví­þjóð í því sam­hengi.

Eftir heim­sókn sína til Sví­þjóðar nú í vikunni segir Lilja að Svíar hafi lagt megin­á­herslu á tvennt.

„Annars vegar skýra aðal­nám­skrá sem tryggir gæði í skóla­starfi. Í því sam­hengi er mikil­vægt að mennta­mála­yfir­völd tryggi að skóla­sam­fé­lagið fái fag­legan stuðning til að fylgja henni eftir sem og að for­eldrar nem­enda hafi þekkingu á nám­skránni. Hins vegar gerðu Svíar stór­á­tak í mark­vissri starfs­þróun kennara sem skilað hefur miklum árangri,“ segir Lilja.

Gæða­menntun lykillinn að vel­sæld fram­tíðarinnar.

Hún segir Önnu Ekst­röm hafa veitt gagn­lega inn­sýn í upp­byggingu mennta­kerfisins og því hvað raun­veru­lega skiptir máli þegar kom að því að styrkja nem­endur í lestri, stærð­fræði og náttúru­vísindum.

„Ís­lensk stjórn­völd hafa mikinn metnað í mennta­málum enda er gæða­menntun lykillinn að vel­sæld fram­tíðarinnar,“ segir hún.

Lilja segir að unnið verði að út­færslu að­gerða á því að efla starfs­þróun kennara, fjölga kennurum með sér­hæfða þekkingu, endur­skoða náms­efni og fyrir­komu­lag náms­efnis­gerðar, stór­auka á­herslu á orða­forða í öllum náms­greinum, fjölga kennslu­stundum í ís­lensku og endur­skoða inn­tak kennslunnar. Þá verði stofnað fagráð í læsi, stærð­fræði og náttúru­vísindum og mennta­rann­sóknir efldar. Væntingar til nem­enda verða auknar á­samt sam­starfi allra hags­muna­aðila.