Mikill meirihluti Dana er hlynntur því að leggja niður undanþáguákvæði um þátttöku Danmerkur í varnarsamstarfi Evrópusambandsins.

Alls greiddu 66,9 prósent Dana vildu leggja niður ákvæðið í atkvæðagreiðslu gærdagsins en 33,1 prósent vildu halda því.

Í þrjátíu ár hefur Danmörk verið undanskilin öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins og nú er ljóst að Danir vilja breyta því.

Gert er ráð fyrir því að Danir hefji þátttöku í samstarfinu frá og með 1. júlí næstkomandi, fyrst þurfi að ganga frá nokkrum formlegum atriðum.

Afstaða Dana var mjög skýr í kosningunum í gær en meirihluti í hverju einasta sveitarfélagi Danmerkur kaus að afnema undanþáguna.

Boðað var til atkvæðagreiðslunnar í byrjun mars, skömmu eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Mette Fredriksen fagnaði niðurstöðunni í nótt og sagði þetta eina skýrustu niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um mál sem tengjast Evrópusambandinu í Danmörku en þetta er í níunda sinn sem Danir ganga til atkvæðagreiðslu í málum tengdum sambandinu.

Lítil kjörsókn Dana hefur þó vakið athygli en aðeins 65,8 prósent atkvæðisbærra manna kusu í gær.