Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að þrátt fyrir allt geti þjóðin leyft sér hóflega bjartsýni um að ný afbrigði veirunnar reynist veikari með tímanum og þá hljóti varnir að taka mið af því. „Það vita það allir, og þríeykið þar með talið, að sóttkví, einangrun og smitgát og allar þessar leiðir geta aldrei verið vörn til eilífðarnóns, þótt við viljum ekki fella niður það sem vel hefur gefist núna á svipstundu,“ segir forsetinn.

Þótt hann fari ekki með formlegt stjórnskipulegt hlutverk á stundum sem þessum segist hann reglulega heyra í æðstu ráðamönnum. „Ég á alltaf mína reglubundu fundi með forsætisráðherra og fylgist með því sem ég þarf að fylgjast með. Svo hef ég nú í þessum faraldri leyft mér að heyra öðru hvoru í þríeykinu og heilbrigðisráðherra en þar fyrir utan hefur forseti engu stjórnskipulegu hlutverki að gegna í þessum efnum,“ segir Guðni.

Hann segir að líkt og á öðrum sviðum þjóðfélagsins hafi faraldurinn sett mark sitt á embættið eins og annarra þjóðarleiðtoga. „Við ferðumst ekki jafn mikið og fundum og viðburðum fækkar sömuleiðis. Í hinu stóra samhengi skiptir það nú ekki miklu máli og ég kveinka mér ekkert undan því,“ segir hann.

Til stóð að halda jólaboð á Bessastöðum fyrir börn starfsliðs sendiráða auk árlegrar nýársmóttöku fyrir þingmenn og æðstu embættismenn. Hvort tveggja reyndist nauðsynlegt að fella niður að þessu sinni.

Aðspurður um áramótaávarpið og hvort hann hafi íhugað að nota kannski sama ávarp og í fyrra, í ljósi þess að við stöndum enn í sömu sporum, kímir Guðni. Hann segir að þótt margt sé enn óbreytt séum við þó reynslunni ríkari.

„Oft er það nú svo að við ráðum ekki öllu í þessu lífi en ráðum þó hvernig við bregðumst við. Langoftast er nú skynsamlegast að fyllast kappi og bjartsýni frekar en doða og drunga. Þannig að þótt það sé við margan vanda að etja vona ég að fólk geti litið björtum augum fram á við. Við höfum séð það svartara.“