Skyn­sam­legast væri að bólu­setja þá sem fengið hafa Jans­sen bólu­efnið að nýju með Jans­sen efninu, frekar en með öðrum bólu­efnum, til að tryggja nægi­lega vörn gegn Delta af­brigðinu. Þetta segir Björn Rúnar Lúð­víks­son, yfir­læknir ó­næmis­fræði­deildar Land­spítala en hann var gestur í út­varps­þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Björn segir að vel verði að fylgjast með gangi mála. Það sé rétt að svo virðist vera sem Jans­sen bólu­efnið hafi minni virkni gegn Delta af­brigðinu. „En er samt sem áður að veita mjög góða vörn gegn spítala­inn­lögnum og al­var­legasta formi sjúk­dómsins,“ segir Björn.

„Það sem menn eru að tala um að það veitir 60 prósent vörn gegn sjúk­dóms­ein­kennum. Við megum ekki gleyma því að við erum fyrst og fremst að bólu­setja til að gera þrennt. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að fólk sé að látast. Það er megin­mark­mið og hefur tekist gríðar­lega vel. Í öðru lagi er að draga úr ein­kennum þeirra sem smitast og það hefur líka heppnast mjög vel. Svo í þriðja lagi er það að reyna að hefta út­breiðslu sýkingarinnar og það er að takast.“

Hann segir ekki mega gleyma því að far­aldurinn sé enn í bullandi gangi. Svipaðar tölur séu nú yfir smit og fyrir ári síðan. Tvær og hálf milljón nýrra til­fella hafi greinst síðan 21. júní. Þó sé verið að ná tökum á far­aldrinum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Hann segir virknina á bólu­efnum svipaða þegar horft sé til eins skammts. „Þar eru þau samt sem áður, sem er mjög já­kvætt, að þá erum við að fá góða dekkun gegn þessu Delta af­brigði sem er að sækja í sig veðrið,“ segir Björn. Í Banda­ríkjunum sé það komið yfir 10 prósent af nýjum til­fellum og allt að helmingur nýrra til­fella í Skot­landi.

Delta að gefa önnur sjúk­dóms­ein­kenni

Þetta sé vegna þess að Delta smiti um 40 prósent meira en önnur af­brigði. „Það sem verra er að það getur valdið al­var­legri sjúk­dóm. Það sem er líka merki­legt við þetta af­brigði er að það er að gefa að­eins öðru­vísi sjúk­dóms­ein­kenni. Þannig það byrjar sem hefð­bundið kvef, efriloppu­ein­kenni, háls­bólgu og hiti og svo heldur það á­fram að þróast og getur orðið í raun al­var­legri sjúk­dómur en fyrri af­brigðin,“ segir Björn.

Hann segir að allar líkur bendi til þess að það þurfi að endur­bólu­setja með Jans­sen en þó sé of snemmt að segja til um það. „Þá er ég sann­færður um það að ef til þess kæmi þá færum við að sjá al­gjör­lega sam­bæri­legar tölur, það er að segja að draga úr ein­kenni á smiti, að þá myndum við fá tölur upp í 90 prósent eins og við erum að sjá fyrir AstraZene­ca og Pfizer og reyndar Moderna líka.“

Skyn­sam­legra að velja Janssen aftur frekar en Pfizer eða Moderna

Að­spurður af þátta­stjórnanda hvort það komi þá til greina að þeir sem fengið hafi Jans­sen fái eitt skot af Pfizer eða Moderna í staðinn segist Björn telja að það sé skyn­sam­legra að endur­taka Jans­sen.

„Það eru á­kveðnar ó­næmis­fræði­legar á­stæður fyrir því,“ segir Björn. „Það eru núna stór­k­línískar rann­sóknir í gangi til að renya að svara þessari spurningu en í dag myndi ég frekar mælast til þess að það væri endur­notað Jans­sen,“ segir Björn.

„Ef við hugsum bara hvernig bólu­efnin eru upp­byggð er ekkert sem segir annað en að virknin á Jans­sen ætti að vera al­gjör­lega sú sama og fyrir AstraZene­ca bólu­efnin. Þannig ég held að það verði nú raunin,“ segir hann.

Fólk með skertar ó­næmis­varnir þurfi þriðja skammt

Hann segist hafa meiri á­hyggjur af fólki sem er með undir­liggjandi skertar ó­næmis­varnir. Nefnir Björn fólk sem hefur farið í líf­færa­flutninga, verið í erfiðri krabba­meins­með­ferð, á mjög sterkum ó­næmis­bælandi lyfjum vegna sjálfof­næmis­sjúk­dómum.

„Það er að koma í ljós og það er að verða betri grunnur um það að þetta fólk svari bólu­setningunum ekki nægi­lega vel og þurfi jafn­vel þriðja skammtinn,“ segir Björn. Það eigi við um öll bólu­efni.

„Ég held að það sé eitt­hvað sem að við þurfum að fara að skoða til­tölu­lega hratt vegna þess að þetta er hópurinn sem að við viljum alls ekki að smitist af þessari veiru og fer verr út úr því,“ segir Björn.

„Þess­vegna myndi ég ráð­leggja fólki þó það hafi klárað fulla bólu­setningu og til­heyrir þessum hóp að fara mjög var­lega í öll ferða­lög, sér­stak­lega um svæði þar sem þessi veira grasserar enn, eins og Suður Ameríka, Mið­jarðar­hafið, sum lönd í Asíu og þar sem Delta af­brigðið er að ná sér á strik,“ segir Björn.

Hann segir að vegna góðrar þátt­töku í bólu­setningum hér á landi sé sviðs­myndin allt önnur hér en annars­staðar í heiminum. Önnur af­brigði en Delta séu líka í gangi, sem jafn­vel er vitað minna um.

„Þannig það er á­kveðin hætta, sér­stak­lega þegar veiran fær að halda á­fram að grassera. En það er gríðar­lega já­kvætt og á­nægju­legt að hlutirnir séu að komast í samt horf. En mér finnst fólk vera full væru­kært gagn­vart þessu og talandi eins og þetta sé búið. Þetta er ekkert búið og fólk þarf að hafa varann á sér og hegða sér skyn­sam­lega.“

Björn segir að­spurður að þróun nýrra bólu­efna og upp­færslum á þeim gömlu gegn CO­VID-19 sé í fullum gangi. „En enn sem komið eru þessi bólu­efni sem við erum að nota núna með ó­trú­lega góða virkni og gegn þessu Delta af­brigði. Ég held að við munum sjá það með Jans­sen líka en kannski þurfum við tvær bólu­setningar af því líka. Gögnin eru ekki alveg til reiðu til þess að við getum sagt það með fullri vissu.“