„Mér finnst ég skynja bæði meiri áhuga og meiri skilning á því hversu óskaplega mikilvægt þetta verkefni er. Ég held að þessi alda sem gengið hefur yfir síðastliðið ár og byrjaði með Gretu Thunberg hafi virkilega hreyft við fólki,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlinda­ráðherra, sem er staddur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd.

Guðmundur Ingi flutti á ráðstefnunni í gær yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda. Þar lagði hann áherslu á nauðsyn þess að öll ríki heims grípi til aðgerða sem leiði til árangurs til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Á sama tíma þurfum við að vinna áfram að langtímaáætlunum þar sem stefnt er að kolefnishlutleysi eins og Ísland er að stefna að 2040. Ég kom líka inn á velsældarhagkerfið og mikilvægi þess að horfa ekki bara á efnahagslega vísa, heldur líka umhverfislega og félagslega þegar við tökum ákvarðanir.“

Þótt ráðstefnan fari fram í Madríd er það Síle sem er gestgjafinn. Vegna mótmæla og óeirða í landinu var ráðstefnan flutt til spænsku höfuðborgarinnar.

Í dagskránni leggur Síle áherslu á málefni hafsins og í fyrradag hélt Guðmundur Ingi erindi um súrnun sjávar á viðburði hjá Norðurskautsráðinu.

Þar eigi Íslendingar mikið af rannsóknum en Hafrannsóknastofnun hafi lengi rannsakað súrnun sjávar. Sett hafi verið meira fjármagn í þessar rannsóknir nýlega en einnig rannsóknir á áhrifunum á lífríkið.

„Hafið mun halda áfram að súrna á meðan útblásturinn eykst. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með þessu með auknum rannsóknum en það mun ekki koma í veg fyrir súrnunina og þess vegna er það svo ofboðslega mikilvægt að draga úr losun sem mest má.“

Á loftslagsráðstefnu næsta árs sem fara mun fram í Glasgow þurfa ríki heims að lýsa yfir frekari skuldbindingum á sviði loftslagsmála en þau hafa þegar gert.

„Fundurinn núna er kannski svolítið upptakturinn að því. Ríki hafa kannski ekki verið að lýsa því yfir heldur frekar að það þurfi að grípa til frekari og metnaðarfyllri aðgerða.“

Fjölmennir mótmælafundir hafa verið haldnir í Madríd samhliða loftslagsráðstefnunni og segir Guðmundur Ingi að stemningin í borginni sé merkileg.

„Ég var búinn að bíða í mörg ár eftir því að það yrði til fjöldahreyfing fólks sem myndi standa upp fyrir loftslagið og umhverfið. Það er að gerast núna og alveg stórkostlegt að verða vitni að því, hvort sem það er heima eða erlendis. Við erum að sjá það mjög vel hérna.“