Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í grein sem hann birtir á samfélagsmiðlum sínum að tímabært sé, og nauðsynlegt, að endurskoða reglur um sóttkví. Tilkynnt var í dag að sóttvarnalæknir væri með í smíðum nýjar reglur um sóttkví þar sem verður nánar skýrt hver þarf að fara í sóttkví og við hvaða tilefni.
Í grein sinni fjallar Bjarni um það að það hafi þurft að bregðast við auknum fjölda smita með því að grípa aftur til samkomutakmarkanna og að það hafi helst verið gert til að verja heilbrigðiskerfið.
„Nú stöndum við í miðri vinnu við að ákveða framhaldið. Við höfum lært margt af eigin reynslu og getum lært af öðrum. Öllum er ljóst að við þurfum að sætta okkur við að veiran verður áfram með okkur um sinn og þessa reynslu þarf því að nýta, halda áfram að læra og bregðast við í samræmi við aðstæður,“ segir Bjarni í grein sinni.
Hann segir að margt sé hægt að gera og ítrekar að á spítalanum hafi allt verið gert sem hægt var til að tryggja að þar gengi allt upp, vandamálið væri ekki fjármögnun heldur mönnun.
Bjarni segir að á þessum tímapunkti faraldurs sé tímabært að endurskoða reglur um sóttkví og nota önnur úrræði eins og skyndipróf, ef það er hægt.
„Það virðist gefa góða raun annars staðar og á að vera forgangsmál á þessum tímapunkti,“ segir Bjarni og bendir á að með því væri skimunargeta þjóðarinnar betri og meiri.
„Langar raðir bólusettra einkennalausra á leið í skimun ættu að vera úr sögunni, ef við bara tökum í gagnið fjölbreyttari lausnir,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að á meðan þessi úrræði eru óreynd sé ótímabært að ræða langtíma takmarkanir innanlands
„En það er fyrir bestu að horfast í augu við það mat að það geti tekið langan tíma að losna við þessa óværu fyrir fullt og allt. Verkefnið er þá að geta lifað með því ástandi,“ segir Bjarni.
Færsluna má sjá hér að neðan.