„Það er ekki samræmt verklag sem styður aðstandendur eftir skyndilegan missi. Það getur haft áhrif hvaða dagur er, í hvaða hverfi viðkomandi býr, landshluta, hvort það sé reyndur aðili á vakt eða hvort það er sumarfrí. Þetta er því miður svo handahófskennt, ósamræmt og ómarkvisst,“ segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, fag­stjóri Sorgarmiðstöðvar, en í dag fer fram ráðstefna Sorgarmiðstöðvar um skyndilegan missi.

Skyndilegur missir snertir marga og verður á ráðstefnunni fjallað um hann frá mismunandi sjónarhornum. Af vettvangi, á vinnustöðum, frá sjónarhóli aðstandenda og í pallborðsumræðum verður þeirri spurning velt upp hvernig hægt sé að gera betur fyrir syrgjendur sem missa skyndilega.

Alma Möller landlæknir setur ráðstefnuna sem verður í sal deCODE, Sturlugötu 8, ásamt því að vera streymt en hún hefst klukkan eitt.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mun fjalla um sorgarorlof. Anton Örn Karlsson, deildarstjóri hjá Hagstofunni, segir frá tölum og staðreyndum. Stefnir Snorrason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir frá komum slökkviliðsins á vettvang skyndilegs andláts. Rauði krossinn fjallar um sálræna hjálp og Inga Berg Gísladóttir, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis, fjallar um vinnustaði. Kolbeinn Elí Pétursson segir frá sinni reynslu sem aðstandandi af skyndilegum missi áður en Guðrún Jóna kynnir verkefnið Hjálp48.

„Við viljum styðja fólk sem missir skyndilega og við viljum gera það á fyrstu 48 klukkutímunum frá andláti,“ segir Guðrún Jóna um verkefnið. „Heilsugæslan bendir á geðheilsuteymið sem bendir á Landspítalann og enn aðrir segja að prestarnir séu með þetta á sinni könnu og enn aðrir benda á aðra. Þetta er veruleikinn. Það benda allir hver á annan,“ segir hún.

Guðrún Jóna segist vera spennt fyrir komandi ráðstefnu. „Það upplifa of margir ómarkvissan stuðning eða jafnvel engan.“

Skyndilegur missir snertir marga og verður fjallað um hann frá mismunandi sjónarhornum á ráðstefnunni sem fram fer í dag.
Fréttablaðið/Getty

Yfir hundrað á ári

Anton Örn Karlsson, deildarstjóri hjá Hagstofunni, mun ræða um tölur og staðreyndir um skyndilegan missi. Hann segir að ekki hafi áður verið teknar saman slíkar tölur.

„Við byggjum á flokkun dánarmeina og það sem við sjáum þegar við tökum aldurinn 20-64 ára er að það séu um 117-144 skyndileg andlát á ári frá 2016-2020. Karlar eru fleiri í þessum hópi. Konur eru aðeins um 25 prósent á ári.“

Anton bar saman tölur frá Svíþjóð og er Ísland með svipaðar tölur og frændur vorir. „Núna þegar þetta er birt viljum við gjarnan fá viðhorf fólks um hvort við getum gert betur.