Sálfræðingafélag Íslands segir í yfirlýsingu að heilbrigðisstarfsmönnum beri siðferðisleg skylda til að benda á það þegar opinber umræða er á villigötum, þegar hætta er á að umræða um heilsu fólks sé líklegri til að skaða en hjálpa. „Það kemur hvorki nornaveiðum né menntasnobbi við.“

Tilefnið er orðræða fyrirlesarans Öldu Hrannar Hjaltalín „Ég er nóg“. Sálfræðingafélagið segir að það sé mikilvægt að fólk sé meðvitað um eigin styrkleika og hlúi að sér; hafi kunnáttu til að leysa ýmis vandamál dagslegs lífs með margs konar aðferðum. Gott sé að geta leitað til sinna nánustu eða upplýsinga á netinu.

Þess vegna geti það verið gagnlegt að setja sér markmið að vera bjartsýn, vinna að þeim og vona það besta. Það geti jafnvel hjálpað þeim sem eru stressaðir fyrir próf eða með fiðrildi í maganum vegna ræðuhalda að segja „Ég er nóg“.

„Þegar hinsvegar um er að ræða alvarlegan vanda, sjálfsvíg og skilgreindar geðraskanir sem hafa veruleg truflandi áhrif á daglegt líf fólks þá duga einfaldar skyndilausnir því miður ekki og það að halda því fram getur haft skaðleg áhrif,“ segir í yfirlýsingunni.

Mikilvægt sé að greina á milli þegar umræða um heilsu fóks sé líklegri til að skaða en að hjálpa. „Þegar við tölum um geðraskanir og mögulega meðferð þá vöndum við okkur og tölum af ábyrgð. Gerum ekki lítið úr alvarlegum og flóknum vanda með því að benda á skyndilausnir.“