Heil­brigðis­starfs­fólk, kennarar og fólk sem starfar með fötluðum verða sam­kvæmt nýjum reglum í Nýja Sjá­landi að vera bólu­sett til að sinna starfi sínu. Þetta til­kynnti for­sætis­ráð­herra landsins, Ja­cinda Ardern, í morgun um leið og hún fram­lengdi sótt­varnar­tak­markanir í Auck­land um eina viku.

Mikill fjöldi Delta-af­brigðis kórónu­veirunnar hefur greinst í landinu undan­farið. Sam­kvæmt á­ætlunum er planið þar að reyna nú að lifa með veirunni eins vel og hægt er og til þess að það sé hægt er talið að best sé að bólu­setja sem flesta gegn henni.

Ardern sagði að fram undan væru krefjandi og erfiðir tímar glímu þeirra við far­aldrinum en að leiðin fram á við væri skýr og sam­hliða því sem bólu­setningar­hlut­fall myndi hækka væri hægt að slaka á tak­mörkunum.

2,38 milljón Ný­sjá­lendinga hafa nú þegar þegið bólu­setningu, eða um 57 prósent þeirra sem mega þiggja hana. Vonast er til þess að hlut­fallið verði komið upp í 90 prósent þegar tak­mörkunum lýkur.

Heil­brigðis­starfs­fólk og fólk sem starfar með fötluðum þarf að vera búið að bólu­setja sig fyrir 1. desember en kennarar og leik­skóla­starfs­fólk þarf að vera búið að þiggja báða skammta bólu­setningar fyrir þann 1. janúar.

Vel hefur tekist að halda smit­fjölda í skefjum í Nýja-Sjá­landi og frá því að far­aldurinn hófst hafa 4.600 til­felli greinst og 28 látið lífið.

Greint er frá á Reu­ters.