Guð­mundur Heiðar Helga­son, markaðs­stjóri Strætó, furðar sig á verk­ferlum Reykja­víkur­borgar og segir borgina vilja sóa tíma og peningum frekar en að sýna við­leitni.

„Þó ég starfi hjá opin­beru fyrir­tæki þá get ég stundum fórnað höndum yfir því hversu ó­sveigjan­legt og fer­kantað kerfið getur verið hjá stofnunum eins og Reykja­víkur­borg,“ skrifar Guð­mundur á Face­book síðu sinni.

Skylda að hafa gras og berja­runna

Guð­mundur flutti á­samt fjöl­skyldu sinni í nýja hverfið í Voga­byggð í nóvember á síðasta ári. Með í­búðinni fylgir lítill sér­af­notareitur með sól­palli og skjól­vegg.

„Við klóruðum okkur hins vegar að­eins í hausnum yfir því að smiðirnir kláruðu að­eins helminginn af gólfinu og fóru síðan að ganga frá veggjunum.“ Við nánari at­hugun kom í ljós að sam­kvæmt skil­málum Reykja­víkur­borgar má pallurinn ekki ná yfir allan reitinn heldur þarf að vera gras og berja­runni á hverjum sér­eigna­fleti.

„Okkur finnst pínu­lítill gras­blettur og berja­runni innan lítils skjól­veggjar mjög ó­praktísk út­færsla,“ út­skýrir Guð­mundur sem spurði verk­takann hvort hægt væri að stækka pallinn. „Það er ekki hægt.“ Verk­takanum sé skylt að setja gras og berja­runna á reitinn annars fær hann ekki loka­út­tekt frá borginni.

Séreignarreiturinn sem um ræðir er fremur smár.
Mynd/Facebook

Engu skilað að ræða við borgina

„Ég er búinn að vera í sam­skiptum við borgina í vikunni en það hefur engu skilið. Borgin kýs frekar að láta tyrfa reitinn og koma berja­runna fyrir og láta okkur síðan um að rífa upp blettinn þegar að verkinu er lokið. Því­lík sóun á tíma og peningum.“

Guð­mundur spyr því næst hvers vegna þjónusta borgar­kerfisins sé svo ó­sveigjan­leg og hví eig­endur fái ekki að ráða hvernig sér­af­notareitir eru af­hentir. „Við getum alla­vega lofað ykkur því að um leið og verkinu er lokið, þá fer pallurinn beinustu leið yfir gras­blettinn og berja­runnann!“

Þó ég starfi hjá opinberu fyrirtæki þá get ég stundum fórnað höndum yfir því hversu ósveigjanlegt og ferkantað kerfið...

Posted by Guðmundur Heiðar Helgason on Wednesday, January 20, 2021