Saksóknari í máli Gísla Haukssonar athafnamanns lagði til sextíu daga skilorðsbundið fangelsi til refsingar, við meðferð máls gegn honum í héraðsdómi á mánudag. Gísli hefur játað brot í nánu sambandi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, en samkvæmt almennum hegningarlögum getur slíkt brot varðað allt að sex ára fangelsi.

Í ákæru er Gísla gefið að sök að hafa ítrekað tekið fyrrverandi sambýliskonu sína kverkataki, skellt henni utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og féll í gólfið. Þegar hún reyndi að flýja inn í herbergi er hann sagður hafa farið á eftir henni, gripið ítrekað í handleggi hennar og fleygt henni í rúmið.

Við árásina hlaut brotaþoli tognun og ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg auk margra yfirborðs­áverka á hálsi, öxl og upphandlegg.

Samkvæmt Huldu Elsu Björgvinsdóttur, sviðsstjóra ákærusviðs Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, var farið yfir dómaframkvæmd í sambærilegum málum með hliðsjón af atriðum sem gætu haft áhrif á refsingu. Nefnir hún til dæmis að skýlaus játning Gísla á brotinu hafi áhrif til refsimildunar.

Inga Lillý Brynjólfsdóttir lögmaður segir refsingar í heimilisofbeldismálum oft léttari en tilefni gefur til. Ofbeldi innan veggja heimilisins sé nú skilgreint sem alvarlegt brot, en Inga segir það leitt að refsingar skuli ekki endurspegla það.

„Þessi brot eru með alvarlegustu brotum sem þú fremur, gegn þínum nánustu, og almennt eru brot í hegningarlögum talin alvarlegri ef þau beinast gegn nákomnum,“ segir hún.

Dómsuppsaga í máli Gísla var á dagskrá héraðsdóms í gær en henni var frestað fram yfir helgi.