Hall­dóra Guð­munds­dóttir, leik­skóla­stjóri á Drafnar­steini, segir að það hafi í mörg ár á leik­skólanum verið rætt hversu slæm á­hrif það geti haft á börnin að fá skvísur of oft.

Fjallað var um það íMorgun­blaðinu í fyrra­dag að dag­for­eldrar í Hafnar­firði hafi ríkar á­hyggjur af því að börn í kringum eins árs aldur hafi að­eins fengið slíkan mat og kunni ekki að tyggja eða nota hnífa­pör. Þau hafi á­hyggjur af þróuninni. Þá sagði sér­fræðingur hjá Land­læknis­em­bættinu á RÚV í gær að ekki væri ráð­lagt að gefa börnum mat úr skvísum dag­lega.

„Við finnum alveg fyrir þessu. Þetta er mjög þægi­legt þannig maður skilur þetta alveg. Þetta er holl og góð næring, en það sem að fólk fattar ekki er að þau læra ekki að nota hnífa­pör og eiga mjög oft erfitt með að tyggja matinn sinn,“ segir Hall­dóra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að börnin verði alltaf eldri og eldri sem þau taki eftir þessu hjá. Þau kunni ekki að sitja til borðs eða halda á hnífa­pörum. Hún segir að það sé þau auð­vitað hluti af því sem þau eiga að læra í leik­skólanum en hún hafi einnig á­hyggjur af því að ef þau læra ekki að tyggja, geti það haft á­hrif á mál­þroska barnanna.

Spurð hvort hún telji að það þurfi að ræða við for­eldra segir hún að það myndi ef­laust hjálpa.

„Mér fyndist það alveg ráð­legt og eðli­legt að ræða um þetta. Þau eru auð­vitað að læra ýmis­legt svona í leik­skólanum eins og að sitja til borðs og borða, en ég hef mikið spáð í þessu með mál­þroska undan­farin ár,“ segir Halldóra.

Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri, er til vinstri og Sonja Magnúsdóttir, talmeinafræðingur, til hægri.
Mynd/Samsett

Snuð og skvísur valdi slakra vöðva

Sonja Magnús­dóttir, tal­meina­fræðingur, heldur úti fræðslu­síðunni Matur og munnur, þar sem hægt er að nálgast ýmsar upp­lýsingar um matar­venjur barna og vanda­mál tengd fæðu­inn­töku þeirra. Sonja segir að hún hafi um ára­bil varað við mikilli notkun skvísa og snuða því þau séu helstu á­hrifa­valdar sla­kra vöðva á munn­svæði.

Hún segir að það sama gildi í raun um skvísurnar og snuðin. Þau geri það að verkum að tunga barnanna fari ekki í hvíldar­stöðu í gómnum

Spurð út í það hvort skvísurnar geti haft áhrif á málþroska segir Sonja þær ekki beint hafa áhrif á málþroska, heldur geti þær haft áhrif á framburð barnanna þegar þau læra að tala.

„Þegar þau fá skvísurnar fá þau ekki tæki­færi til að tyggja sem verður svo kannski til þess að vöðvarnir verða frekar slappir og þau fá ekki færni endi­lega í því að mynda á­kveðin hljóð,“ segir Sonja.

Hún segir að erfitt sé að lýsa þeim á einn eða annan hátt því það geti verið mis­jafnt.

Fæðuinntakan er þroskaferli

Sonja hefur mikið unnið með fæðu­inn­töku og segir að allt svona hafi á­hrif. Það skipti máli að barnið fái ekki alltaf matinn í skvísum því þau læri ekki að nota hnífa­pör og fái ekki til­finningu fyrir matnum sem þau eru að borða.

Maturinn megi, og eigi í raun að vera maukaður til um 9 mánaða aldurs, en að mikil­vægt sé að þau læri að tyggja og borða með á­höldum.

„Fæðu­inn­takan sem slík er þroska­ferli, eins og máltakan. Allt til níu mánaða ertu að fá mauk. Svo á milli níu og tólf mánaða ertu að fá litla bita, en þegar þau eru orðin tólf mánaða þá viljum við að þau séu í raun að borða nánast það sama og við, nema það á auð­vitað að vera í við­ráðan­legum eða hæfi­legum bita­stærðum,“ segir Sonja.

Sonja segir að það séu ó­hætt að gefa börnum slíkar skvísur, þær séu góðar til sinna nota, eins og á ferða­lögum, en að ekki eigi að of­nota þær.

Fréttablaðið/Getty

Snuð hafi einnig skaðleg áhrif

Sonja hefur einnig mikið fjallað um þroska munnsins og segir að í því sam­hengi, hafi snuðin, eins og skvísurnar veru­lega mikil á­hrif.

„Það hefur á­hrif á tungu­stöðuna. Þegar snuðið er í tungunni þá nær tungan ekki hvíldar­stöðu sinni sem er upp við góminn. Börnin pressa henni niður þegar þau eru með snuð og ef þau ætla, til dæmis að tala, þá er ó­mögu­legt að skilja þau,“ segir Sonja.

Lang­varandi notkun snuða og skvísa geti þannig haft veru­lega á­hrif á munn­þroska barnsins. Sonja segir að svo að beinin í efri kjálka nái að þroskast al­menni­lega þurfi tungan að fara í hvíldar­stöðu, við góminn.

„Tungan styður við góminn og kjálka­myndunina,“ segir Sonja.

Sonja segir að oft sé vísað til þess að tann­læknar tali um að í lagi sé fyrir börn að nota snuð til þriggja ára aldurs. Hún segir að tann­læknar miði flestir við þroska tannanna og að hætti börnin fyrir þriggja ára aldur sé hægt að koma í veg fyrir að gat myndist á fram­tönnum.

„Bitið getur gengið til baka, en það er ekki það sem ég hugsa um, ég er að huga um stöðu tungunnar,“ segir Sonja.

Hægt er að kynna sér nánar síðu Sonju hér að neðan á Facebook.