Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um tíuleytið í gærkvöldi vegna konu sem var að ráðast að dyraverði við veitingastað í miðbæ Reykjavíkur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Konunni hafði verið vísað út af veitingastaðnum en kom til baka og skvetti bjór yfir dyravörð og byrjaði að berja hann með veski sínu.

Dyravörður hélt konunni þar til lögreglan kom á staðinn en þá var hún orðin róleg og var henni gert að yfirgefa vettvang sem hún gerði.

Datt um rafmagnshlaupahjól

Rétt fyrir miðnætti barst tilkynning um slys í miðbænum. Kona hafði dottið um rafmagnshlaupahjól þar sem það lá á gangstétt. Hún fékk skurð fyrir ofan auga og var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild.

Þá var annað slys í miðbænum tilkynnt laust eftir klukkan eitt í nótt, ungur maður steig á glerbrot sem fór í gegnum skó hans en það var fast í fæti hans. Óskað var eftir sjúkrabifreið sem kom á vettvang og var glerbrotið fjarlægt og maðurinn síðan fluttur til aðhlynningar á bráðadeild.

Framvísaði fölsuðu skírteini

Í Breiðholti var tilkynnt um líkamsárás snemma í gærkvöldi en maður hafði verið kýldur í andlitið á veitingastað með þeim afleiðingum að hann missti tönn.

Þegar lögreglan kom á staðin var árásaraðili farinn af vettvangi og þáði þolandinn enga aðstoð.

Einn var vistaður í fangageymslu lögreglunnar í nótt en sá var stöðvaður grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og án gildra ökuréttinda. Maðurinn framvísaði fölsuðu skírteini og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.