Fjöl­miðla­full­trúi var skotinn með ör í kálfann í mót­mælunum í Hong Kong í dag en at­vikið átti sér stað fyrir utan Polyt­echnic há­skólans (PolyU) en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Þá skutu einnig mót­mælendur bensín­sprengjum í átt að lög­reglu eftir að lög­regla notaði tára­gas og vatns­sprautur á mót­mælendur.

Mót­mælin í Hong Kong hafa nú að miklu leyti færst yfir á há­skóla­svæði og hafa nem­endur tekið virkan þátt í mót­mælunum. Nem­endur há­skólans hafa nú lokað sig inni í há­skólanum en lög­regla hefur skipað þeim að hörfa af svæðinu. Tugir hafa verið hand­teknir en talið er að enn séu hundruð nem­endur inni í skólanum.

Fjölmiðlafulltrúi lögreglu var skotinn með ör í kálfann.
Fréttablaðið/AFP

Háskólasvæðið ekki vettvangur fyrir átök

Yfir­völd reyna nú að ná sam­bandi við nem­endurna en óttast er að ef nem­endurnir hörfi ekki muni lög­regla brjótast inn með valdi. Stjórn­endur há­skólans hafa þar að auki gefið út yfir­lýsingu þar sem nem­endurnir eru hvattir til að yfir­gefa skólann þar sem hann væri ekki vett­vangur fyrir átök.

Mikil ó­reiða hefur verið í Hong Kong síðustu mánuði sem má rekja til þess að stjórn­völd lögðu fram um­deilt frum­varp í júní sem heimilaði fram­sal til Kína. Hong Kong hefur verið sjálf­stjórnar­hérað í Kína frá alda­mótunum en yfir­völd í Peking hafa þó á undan­förnum árum reynt að auka á­hrif sín í Hong Kong.