Auglýst er eftir pólskum manni, Mateusz Tynski, sem búsettur var hér á Íslandi. Samkvæmt auglýsingum samtakanna ITAKA, sem leita að týndu fólki, sást hann síðast í Sandgerði 28. febrúar.

„Ég skutlaði honum í flug og hef ekkert séð hann meira. Hann var á leiðinni til Póllands,“ segir íslenskur nágranni Mateusz í Sandgerði við Fréttablaðið. „Hann var búinn að búa hérna í nokkur ár. Þetta er rólyndisdrengur og þægilegur náungi.“

Sævar segist ekki hafa orðið var við neina óreglu á Mateusz en að hann sé frekar mikill einfari.

Lögreglan á Suðurnesjum hafði ekki upplýsingar um hvarf Mateusz og ekki náðist í sendiráð Póllands fyrir vinnslu þessarar fréttar.

Mateusz er 29 ára gamall, 177 sentimetrar á hæð og með brún augu.