Skúrir eða slydduél verður í flestum landshlutum í dag og vindur getur aukist tímabundið meðan á hryðjunum stendur. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar að útlit sé fyrir vestlæga átt í dag, yfirleitt á bilinu 8 til 13 m/s. Hiti 2 til 8 stig.

Í kvöld á að lægja og létta til á sunnan- og vestanverðu landinu og kólnar allvíða niður að frostmarki og þá getur myndast hálka á vegum. Það eru jafndægur á hausti í dag og kominn sá tími þegar vera þarf á varðbergi gagnvart hálku.

Í gær var appelsínugul viðvörun á höfuð­borgar­svæðinu, Suður­landi, Faxa­flóa, Vest­fjörðum, Aust­fjörðum, Suð­austur­landi og Mið­há­lendinu. Lægðin sem olli óveðrinu í gær er nú komin austur fyrir Jan Mayen. Nú í morgunsárið mælist enn hvassviðri úti við norðausturströndina, en þar dregur úr vindi á næstu klukkustundum.

Á höfuðborgarsvæðinu verður vestanátt, 5-13 m/s með morgninum og skúrir eða slydduél. Hægari norðvestanátt og þurrt undir kvöld. Hiti 2 til 6 stig. Í morgun urðu margir varir við haglél.

Rigning í höfuðborginni á morgun

Á morgun nálgast lægð úr suðvestri og fer miðja hennar yfir landið. Þá má búast við austlægri og síðar breytiegri átt 5-13 m/s með rigningu. Á Norður- og Austurlandi verður þurrt þangað til síðdegis, en þá fer einnig að rigna þar og slydda á heiðum. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suðurströndina. Á höfuðborgarsvæðinu verður suðaustan 8-13 m/s og rigning á morgun, hiti verður á bilinu 3 til 8 stig.