Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW, hefur ásamt konu sinni Grímu og foreldrum sínum byggt upp ferðaþjónustu í Hvammsvík í Hvalfirði. Hann lýsir sýn sinni á verkefnið í helgarblaði Fréttablaðsins.

„Þetta verkefni kom fyrr upp í hendurnar á mér en ég átti von á,“ segir hann með glott á vör. „Mér var kippt niður á jörðina, akkúrat þessa hér sem blasir við okkur.“ Og hugmyndafræðin er klár, segir hann ákveðinn og meinar sjálfbæra ferðaþjónusta upp á tíu fingur.

Hér komist menn í náttúrunnar skjól; ferðamaðurinn sem gisti Hvammsvík vakni undir dúnsæng, úr æðarvarpinu í kring, gangi niður að vatni og veiði sér silung í hádegismatinn með heimasprottnum kartöflum og grænmeti, gangi svo saddur á fjöllin í kring, fari á kajak um fjörðinn, eða renni fyrir lax, uns hann njóti sjóbaðanna sem verða opnuð næsta vor, en þar sé 90 gráðu heitu vatni blandað saman við sjó svo úr verður einstök veröld ferskleikans í flæðarmálinu, en í kvöldmat sé svo matur úr héraði, snæddur í gömlu hlöðunni þar sem menningin flæðir milli veggja fram á nótt.

„Hér sameinast það alþjóðlega og staðbundna í einum punkti. Og hér sjáum við stóru breytinguna. Fyrir tíu árum var kallað eftir fleiri álverum. Núna er kallað eftir meiri náttúruvernd. Og Ísland skorar þar hæst allra þjóða á norðurslóðum með öllu sínu ósnortna víðerni, hreinu vatni og lofti – og öryggi,“ segir Skúli, minnugur þess hvað ferðamaðurinn vill. „Hingað mun New York-búinn koma sem aldrei hefur komið við mold eða séð lifandi fisk.“