Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW lýsir því í nýjasta helgarblaði Fréttablaðsins hvernig hann fékk hugmyndina að stofnun flugfélagsins fyrir áratug þegar hann flutti heim ásamt þáverandi konu sinni og börnum þeirra hjóna frá Kanada, einmitt þegar Ísland var í félagslegri upplausn, svo fordæmalausri, að ósk þáverandi forsætisráðherra um blessun guðs, þjóðinni til heilla, virtist ekki ætla að rætast.

Í tilviki Skúla tóku við alls konar fjárfestingar í fyrirtækjum og fjármálasjóðum, svo sem MP-banka sem síðar varð Kvika, „en mér fannst galið á þessum tíma þegar ríkið sat uppi með alla viðskiptabankana þrjá að einkaframtakið hefði ekkert fram að færa á þessu sviði.“

En svo fór þér að leiðast?

„Ójá, ég sat bara í stjórnum og taldi peninga og lét mér leiðast. Ég var ekki hamingjusamur, mig vantaði áskorun. Ég fann að eðlislæg framtakssemi var farin að dofna og áttaði mig öðru fremur á því að kyrrseta á ekki við mig. Mig þyrsti að komast aftur frumkvöðlastólinn og byggja eitthvað upp, en vissi jafnframt að það yrði að vera stórt og krefjandi verkefni svo mér myndi ekki leiðast. Ég fór því að hugsa út fyrir kassann og áttaði mig smám saman á því hver samlegðaráhrifin af hnattstöðu landsins og náttúrugersemum þess eru mikil.“

Þetta var þitt WOW?

„Já, akkúrat, augu mín opnuðust.“