Skúli Tómas Gunnlaugsson, læknir sem hefur starfað á Landspítala með takmarkað læknaleyfi, hefur verið færður til í starfi og mun ekki eiga í samskiptum við sjúklinga meðan hann er til rannsóknar hjá lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum sem RÚV fjallaði um í frétt sinni í dag.

Minnst ellefu mál til rannsóknar
Störf Skúla Tómasar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er til rannsóknar hjá lögreglu en hann er grunaður um vanrækslu og röð alvarlegra mistaka sem leiddu til andláts að minnsta kosti eins sjúklings. Leikur grunur á að hann hafi sent Dönu Kristínar Jóhannsdóttur, 73 ára sjúkling, í lífslokameðferð að óþörfu. Alls eru ellefu mál til rannsóknar hjá lögreglu, þar af vegna andláta sex sjúklinga.
Lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar og felur það í sér að ekkert er gert til að lengja líf sjúklings, sýkingar ekki meðhöndlaðar og næringu og vökva ekki haldið að sjúklingnum. Slíkri meðferð er aðeins beitt þegar sjúklingur er að dauða kominn og stendur hún venjulega aðeins í örfáa daga.
„Settur forstjóri Landspítala hefur í ljósi þessa fært umræddan lækni til í starfi og mun hann ekki vera í sjúklingasamskiptum meðan skýrari mynd fæst af þeirri atburðarrás sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu,“ segir í tilkynningu frá Landspítalanum. Tekið er fram að ekki sé lagt mat á sekt eða sakleysi í málinu en að sjúklingar njóti ætíð vafans.
Skúli Tómas er með takmarkað leyfi sem gildir til 12. nóvember 2022 samkvæmt starfsleyfaskrá Landlæknis.
