„Við hættum að vera lággjaldaflugfélag,“ segir Skúli Mogensen um ástæður þess að flugfélagið hans WOW féll árið 2019. Hann lýsir þeirri biturri reynslu í helgarblaði Fréttablaðsins.

„Það er misskilningur að fyrirtæki á þessu sviði verði lággjaldaflugfélög við það eitt að bjóða lág fargjöld. Það verður líka að hafa lágan rekstrarkostnað og litla yfirbyggingu. Eina leiðin til þess er að hafa einsleitan flota, yfir 90 prósenta sætanýtingu, fljúga vélunum 400 tíma á mánuði, selja allt í gegnum netið og hafa einfaldleikann að leiðarljósi. Því miður misstum við sjónar á þessu.“

Hvernig þá?

„Með því að bæta breiðþotum við flotann, bjóða betri sæti og fjölga áfangastöðum um of. Ég fór að máta félagið við sjálfan mig, frægðina, uppganginn og arðinn frekar en að vera trúr upphaflegu lággjaldastefnunni eins og Ryanair og Wizzair hafa gert alla tíð, raunar með svo góðum árangri að hvorugt þurfti ríkisaðstoð á tímum farsóttar. Ég missti fókusinn. Ég fór að hugsa meira um vöxt Icelandair en það sem WOW gerði best.“