Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hóf kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins með ræðu sinni á eldhúsdegi. Að hans mati munu kosningarnar snúast um hversu hratt og örugglega okkur tekst að snúa vörn í sókn.

„Þær munu snúast um nýja lífskjarasókn eða aukna skuldasöfnun ríkissjóðs með tilheyrandi verðbólgu og atvinnuleysi. Það verður kosið um að byggja velferð okkar á verðmætasköpun eða taka hana að láni og senda komandi kynslóðum reikninginn,“ sagði Guðlaugur í ræðu sinni.

Líkt og flestir landsmenn er Guðlaugi létt að faraldurinn sé nú á undanhaldi. Hann sagði þó engar töfralausnir til í viðbrögðum við samdrættinum sem faraldurinn hafði í för með sér.

„Þrátt fyrir það sem stjórnarandstaðan heldur fram þá er aukin skuldsetning ríkissjóðs ekki leiðin fram á við. Lífskjörin verða ekki tekin að láni með aukinni skuldsetningu ríkissjóðs. Skuldir hafa nefnilega einn galla, þær þarf að greiða, fyrr eða síðar, og við sem hér erum höfum engan rétt á því að senda komandi kynslóðum reikninginn,“ sagði Guðlaugur

„Við sem hér erum höfum engan rétt á því að senda komandi kynslóðum reikninginn.“

Skattlagning heldur engin lausn að mati Guðlaugs heldur þurfi að veita fólki og fyrirtækjum svigrúm til að skapa verðmæti, létta byrðum, einkum af smærri fyrirtækjum, í stað þess að auka þær og afnema heimatilbúnar hindranir.

Svo þurfi að hagræða í ríkisrekstrinum og ná fram raunverulegum sparnaði eftir myndarlega aðkomu ríkissjóðs að viðspyrnunni síðustu mánuði

Óttann í aftursætið

Guðlaugur nefndi einnig viðspyrnu í afléttingu hafta á daglegt líf fólks.

„Almenningur á Íslandi hefur fórnað miklu á síðustu mánuðum, börnin okkar og unglingarnir þar með talin. Skerðingar á frelsi einstaklingsins eru réttmætar þegar brýna nauðsyn ber til. En slíkar skerðingar mega ekki vera umfram tilefni og ekki standa lengur en þörf krefur. Eftir því sem dregur nú úr hættunni af faraldrinum þurfum við að stíga ákveðin skref í því að draga úr þeim frelsisskerðingum sem taldar voru óhjákvæmilegar þegar faraldurinn geisaði,“ sagði Guðlaugur og bætti við:

„Við ætlum ekki að láta heimsfaraldurinn draga úr frelsi fólks á Íslandi til langs tíma. Þegar faraldurinn hættir að verða raunveruleg ógn við heilsu samfélagsins og innviði heilbrigðiskerfsins, þá er hann búinn. Þá setjum við óttann í aftursætið, og látum vonina, bjartsýnina og framkvæmdagleðina taka við stýrinu á ný.

Ísland fyrirmynd annarra ríkja í mannréttindamálum

Þá sagði utanríkisráðherra ánægjulegt að fylgjast með því hve víða um heim sé litið sé til Íslands sem fyrirmyndar í þessum efnum.

„Við höfum lagt okkar lóð á vogarskálar mikilvægra mannréttinda, og látið dýrmætar hugsjónir ekki síður en verðmæta hagsmuni, ráða afstöðu okkar á alþjóðavettvangi.“