Öryrkjabandalag Íslands lýsir áhyggjum af framfærsluvanda vaxandi hóps fatlaðs fólks á Íslandi og skorar á stjórnvöld að bregðast við án tafar. Þetta er á meðal þess sem segir í ályktun sem aðalfundur ÖBÍ samþykkti um helgina. Fatlað fólk er nú 42 prósent þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara og hefur fjölgað hratt í þeim hópi frá 2019.

„Það vantar aðgerðir strax til að stemma stigu við þeirri fátækt sem við erum að sjá raungerast á hverjum einasta degi. Sérstaklega núna þegar verðbólgan er eins og hún er,“ segir Þuríður H. Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.