„Mér þykir nú heldur skugg­sýnt yfir þing­salnum í dag,“ sagði Jón Stein­dór Valdimars­son, þing­maður Við­reisnar, er hann bar upp fyrir­spurn til utanríkisráðherra við upp­haf fundar á Al­þingi í morgun. 

Ætla má að þing­maðurinn hafi þar átt við ó­vænta endur­komu Mið­flokks­mannanna Gunnars Braga Sveins­sonar og Berg­þórs Óla­sonar inn á þing en þeir hafa undan­farna tvo mánuði verið í sjálf­skipuðu leyfi frá þing­störfum eftir að upp komst um þátt­töku þeirra í um­ræðunum á barnum Klaustri. 

„Ég verð að viður­kenna að það hefur að­eins sett mig úr jafn­vægi að sjá Klausturs­menn sitja hér inni í þessum sal eins og ekkert hafi í skorist en við verðum víst að halda á­fram,“ sagði Hall­dóra Mogen­sen, þing­maður Pírata. 

Víst er að endur­koma beggja mun valda ein­hverjum þing­mönnum hugar­angri og gremju en í upp­tökunum marg­um­töluðu fjalla þeir sem á Klaustri sátu ansi fjálg­lega og illa um aðra þing­menn. Þingfundur hófst klukkan 10.30 en forseti hyggst boða formenn þingflokka á sinn fund klukkan 13.00 að hádegishléi loknu.

Á yfir­lýsingu Gunnars Braga má lesa að endur­koma hans komi einkum til vegna fram­göngu Stein­gríms J. Sig­fús­sonar, for­seta þingsins. Mið­flokks­menn hafa harð­lega gagn­rýnt hvernig staðið hefur verið að málum með skipun nýrrar for­sætis­nefndar. Þannig hefur for­maður flokksins, Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, sagt Stein­grím vera „einn mesta popúlista ís­lenskra stjórn­mála“ og við­horf hans í sinn garð vel þekkt.