Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kom til landsins í gær vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðsins.

Utanríkisráðherrar þeirra átta ríkja sem eiga aðild að ráðinu funda í dag og þá tekur Rússland við formennsku þess af Íslandi. Rússar segjast munu leggja áherslu á sjálfbæra þróun er þeir gegna formennsku í Norðurskautsráðinu næstu tvö árin, auk þess að styðja við menningu innfæddra á svæðinu.

Hinn 71 árs gamli Lavrov hefur gegnt embætti utanríkisráðherra Rússlands síðan 2004. Hann er þaulvanur diplómat og var fastafulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum frá 1994 til 2004.

Lavrov hefur í embætti verið dyggur stuðningsmaður Bashar al-Assad Sýrlandsforseta í sýrlensku borgarastyrjöldinni. Átökin í Úkraínu, sem hófust árið 2014, hafa skipað stóran sess í embættistíð hans þar sem Rússland og Vesturlönd hafa átt í hörðu orðaskaki.

Deildar meiningar eru um hvort Lavrov tilheyri innsta hring Vlad­imírs Pútíns Rússlandsforseta, samkvæmt sérfræðingum í rússneskum stjórnmálum. Misjafnar sögur fara af skapgerð hans og átti hann lítilla vinsælda að fagna meðal meðlima stjórnar Baracks Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Hillary Clinton, sem var utanríkisráðherra frá 2009 til 2013, þótti lítið til Lavrovs koma, þar sem erfitt væri að vinna með honum og framkoma hans kaldranaleg.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom hingað til lands á mánudag. Hann hitti utanríkisráðherra, forsætisráðherra og forseta Íslands á þriðjudag.

Á blaðamannafundi í Hörpu eftir fund hans með Guðlaugi Þór Þórðarsyni var Blinken spurður út í orð Lavrovs um að norðurskautssvæðið væri yfirráðasvæði Rússa. Blinken sagði að hann vonaðist til að áfram ætti sér stað gott samstarf um málefni norðurslóða á vettvangi ráðsins en öllum „gáleysislegum“ aðgerðum Rússa yrði svarað af hálfu Bandaríkjanna.

Guðlaugur Þór og Anthony Blinken.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í gærkvöldi fór fram kvöldverðarfundur utanríkisráðherranna átta í Hörpu. Blinken og Lavrov funduðu einnig í gær og var það í fyrsta sinn sem þeir hittust augliti til auglitis.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundar með Lavrov í Hörpu síðdegis. Hún sagði í fyrradag að með ummælum sínum um meint yfirráð Rússa yfir norðurskautinu hefði Lavrov verið að leggja línuna fyrir fundinn. Það væri áhersla Íslands að svæðið yrði áfram laust við átök. Blinken lýsti því sömuleiðis yfir á þriðjudag að markmið Bandaríkjanna væri að tryggja að norðurskautið yrði ekki átakasvæði.

Gera má ráð fyrir að málefni Ísraels og Palestínu hafi verið ofarlega á dagskrá fundar Lavrovs og Blinkens. Lengi hefur andað köldu milli stórveldanna tveggja, einkum vegna meintra afskipta Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og í fyrra.

Rússar hafa kallað eftir vopnahléi milli Ísraels og Hamas-samtakanna en Bandaríkin hafa í þrígang beitt neitunarvaldi gegn samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um slíkt.

Búast má við því að málefni norðurslóða hafi einnig verið rædd á fundi Blinkens og Lavrovs en Bandaríkjamenn segja yfirlýsingar Rússa brjóta í bága við alþjóðalög um hafrétt á svæðinu.