Rangar upp­lýsingar frá at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu birtust í Frétta­blaðinu í dag þar sem fjallað var um ráð­stöfun ráð­herra ríkis­stjórnarinnar á skúffu­fé sínu í fyrra. Fyrir vikið birtust upp­lýsingar um verk­efna­styrki ráðu­neytisins, ekki ráð­stöfun skúffu­fjár sem er um­tals­vert lægri.

Frétta­blaðið óskaði eftir sundur­liðuðum upp­lýsingum frá upp­lýsinga­full­trúum allra ráðu­neyta um hvernig ráð­herrar ráð­stöfuðu sínu skúffu­fé á síðasta ári og það sem af er ári.

Vegna mis­taka í at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu virtist sem Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, hefði út­hlutað mest allra eða 11,5 milljónum króna í fyrra og öðru eins það sem af er ári.

Hið rétta er að Þór­dís Kol­brún veitti að­eins einn styrk af ráð­stöfunar­fé sínu á síðasta ári. 300 þúsund króna styrk til hvatningar­verð­launa jafn­réttis­mála.

Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, út­hlutaði ekki 3,4 milljónum í fyrra eins og fram kom í fyrra svari ráðu­neytisins. Hið rétta er að Kristján Þór veitti tvo styrki, sam­tals að upp­hæð 350 þúsund króna. 250 þúsund krónum til Meistara­fé­lags kjöt­iðnaðar­manna og 100 þúsund krónum til Lands­sam­bands æsku­lýðs­fé­laga.

Hvorugur ráð­herra hefur veitt af ráð­stöfunar­fé sínu það sem af er þessu ári. Eru þeir því í hópi þeirra ráð­herra sem minnst nýta skúffu­fé sitt.