Í gær myndaðist svokallaður skýstrókur við Suðurströndina nær Þorlákshöfn og Hellisheiði. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru slíkir strókar ekki algengir hér á landi en eru þó alls ekki nýtt fyrirbrigði.

„Þetta er frekar sjaldgæft hérna á Íslandi en sést alltaf öðru hvoru hérna. Við höfum ekki tilfinningu fyrir því að þetta sé að aukast hérna. Þetta myndast oft í tengslum við háreista skúrabakka eins og voru í gær. Þá kemur tota niður úr sem snýst mjög hratt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Hann segir skýstrókana að mestu leyti vera vatnsgufu en það sé ágætis kraftur í þeim og í kringum þá. Skýstrókarnir vara yfirleitt ekki lengi, yfirleitt aðeins í kringum hálftíma. „Þetta er ekki langlíft fyrirbæri,“ segir Þorsteinn.

Skýstrókurinn sem má sjá á myndunum sem Emil H. Valgeirsson tók í gær byrjaði að myndast klukkan 15.19 og var með öllu horfinn um klukkan 16. Hægt er að skoða fleiri myndir sem Emil tók á bloggsíðu hans. Myndirnar eru birtar hér með hans leyfi. 

Ekki hættulegir á Íslandi

Þorsteinn segir að hér á Íslandi séu skýstrókarnir ekki hættulegir en þeir eru oft hraðari og mjög hættulegir í Bandaríkjunum og Evrópu.

Í Bandaríkjunum geta þeir orðið allt að 100 metrar á sekúndu en Þorsteinn taldi að hér á Íslandi væru þeir innan 30 metrum á sekúndu, sem hann sagði þó reyndar vera mjög mikinn vind.

„Það er erfitt að mæla hraðann nema mæla þetta beint en helst væri það hættulegt ef þú værir að fljúga á lítilli flugvél nálægt, hún gæti farið á hvolf. Fyrir flugmenn skiptir þetta máli,“ segir Þorsteinn

Hann segir að ekki sé hægt að spá fyrir þessi fyrirbæri á Íslandi „Þessi fyrirbæri eru það sjaldséð og einstök. En maður hefur stundum séð svona hvirfla við yfirborðið sem eru svona sandstrókar sem myndast á heitum sumardögum og ef það er sól. Þeir eru heldu ekki hættulegir á Íslandi, aðallega skemmtilegt fyrirbæri að sjá. Þá er það þurr sandur eða hey sem þyrlast upp í þessu,“

Strókar annað en strokkar

Á heimasíðu Veðurstofunnar er grein frá því árið 2007 um mismunandi vind í þröngum snúningi og hvaða orð sé best að nota á íslensku til að lýsa slíkum fyrirbærum. Þar er meðal annars fjallað um að endinguna strokk eigi frekar að nota um stærri fyrirbrigðin en þau minni. Hugsanlegar skilgreiningar eftir styrk og stærð væru þá svona: 

• Ryksveipur - þvermál 1 m - vindhraði 10m/s
• Sand- eða vatnsstrókur - þvermál 10 m - vindhraði allt að 50 m/s
• Skýstrokkur - þvermál 100 m eða meira  vindhraði allt að 100 m/s

Greinina er hægt að lesa hér á heimasíðu Veðurstofunnar.

Hér að neðan má sjá myndskeið sem Donce Monde náði af fyrirbærinu í Þorlákshöfn í gær.