Komandi páskar verða með öðru sniði en áður hafa verið sökum kórónaveirufaraldursins sem nú gengur yfir heiminn. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, hefur áður biðlað til fólks um að ferðast ekki meira en nauðsynlegt er og óskar þess að ferðalögum upp í sumarbústað verði sleppt að þessu sinni.

Víðir var spurður að því á upplýsingafundi Almannavarna í dag hvort óhætt væri fyrir stórfjölskyldur að koma saman um komandi páska og yfirlögregluþjónninn sagði ekkert einhlítt svar vera til við þeirri spurningu.

„Það fer allt eftir eðli fjölskyldunnar. Ég minni á það sem Anna [Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns] var að segja um þá sem eru viðkvæmir fyrir. Ekki skynsamlegt að bjóða stórfjölskyldum í mat ef í henni eru einstaklingar í áhættuhópi," segir Víðir.

„Svo er mikilvægt að hafa í huga í þessu tifelli sem og ávallt að því fleiri því meiri líkur á að smitast. Þetta verða skrýtnir páskar og líklega skrýtnustu páskar sem flest okkar munu lifa. Við þurfum bara að vera hugmyndarík í því hvernig við leysum þetta," segir yfirlögregluþjónninn fremur um næstu helgi.

„Björgunarsveitir björguðu um það bil 100 Íslendingum um helgina. Er þetta ekki komið gott? Eigum við að ekki bara að vera heima? Njótum bara návista við okkar nánustu og verum áfram góð við hvort annað og höldum áfram að vera ábyrg," segir hann við þjóðina.