Isavia hefur kyrrsett Dornier skrúfuþotu flugfélagins Ernis á Reykjavíkurflugvelli vegna þjónustugjalda sem félagið skuldar.

„Menn eru aðeins að hnykla vöðvana,“ segir Hörður Guðmundsson, eigandi Ernis um kyrrsetninguna sem gerð var í fyrradag. Auk lendingagjalda greiðir Ernir Isavia yfirflugsgjöld og leigu vegna aðstöðu í flugstöðvum. Ernir fljúga áætlunarflug frá Reykjavík til Vestmannaeyja, Hornafjarðar, Húsavík, Bíldudals og Gjögurs.

Aðspurður segir Hörður skuldina í dag svara til um það bil eins árs þjónustugjalda og nema 98 milljónum króna. „Það hefur safnast upp svolítil skuld sem við höfum átt erfitt með að klára núna vegna þess að andrúmið í flugrekstri er tiltölulega þungt um þessar mundir,“ segir hann.

Hörður segir aðdragandann að kyrrsetningu skrúfuþotunnar hafa verið sérstakan. „Ég var í jarðarför austur á Hornafirði þegar þetta gerist og þegar ég kom til borgarinnar um kvöldið var þetta allt afstaðið.“

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, vill ekki staðfesta upphæð skuldar Ernis við fyrirtækið. Kyrrsetningi sé vegna ógreiddra notanda- og flugleiðsögugjalda innanlands. „Isavia hefur leitað leiða til að komast hjá því að grípa til þessara innheimtuaðgerðar, en ljóst er að um lokaúrræði er að ræða vegna ítrekaðra vanskila,“ segir Guðjón.

Aðspurður hvað Ernir þurfi að gera til kyrrsetningunni sé aflétt svarar Guðjón. „Það þarf að greiða skuldina eða leggja fram tryggingu fyrir upphæðinni.“

Dornier skrúfuþotan kom til landsins í maí í fyrra en var ekki tekin í notkun fyrr en í desember. Hún er stærsta flugvél Ernis, tekur 32 farþega.