Óánægja skrúðgarðyrkjumeistara er vegna nýlegrar skýrslu Viðskiptaráðs, sem ber heitið „Hið opinbera: meira fyrir minna“, en í henni er kafli þar sem bent er á að leyfisskyldu á iðngreinum sé beitt í talsvert meira mæli hér á landi en annars staðar.

Taldar eru upp leyfisskyldar iðngreinar eins og veggfóðrun, hattasaumur, skóviðgerðir og skrúðgarðyrkja og klykkt út með þeim orðum að vandséð sé „...hvernig verulegt tjón geti skapast af slæmri þjónustu þegar kemur að hattasaumi eða skrúðgarðyrkju.

Ekki verður því séð hvernig almannahagsmunir séu að baki leyfisskyldu í þessum greinum.“

„Að okkar mati byggist þessi umfjöllun Viðskiptaráðs á vanþekkingu á starfi skrúðgarðyrkjumeistara. Við teljum að það sé óábyrgt að slengja slíku fram í opinberri skýrslu án þess að kynna sér hlutina betur,“ segir Ágústa Erlingsdóttir, stjórnarmaður í Félagi skrúðgarðyrkjumeistara.

Hún bendir á að fagsvið skrúðgarðyrkju sé víðfeðmt og í starfinu felist meðal annars allar nýframkvæmdir á lóðum. Þar má nefna hellulagnir, hleðslur, þökulagnir og ýmislegt fleira.

„Fáir átta sig á að uppsetning á leiktækjum og leiksvæðum fellur undir skrúðgarðyrkju. Þar er mikilvægt að fara eftir öryggisstöðlum og því sannarlega almannahagsmunir að vel sé vandað til verka enda líf og velferð barna í húfi,“ segir Ágústa.