Þing­flokkur Pírata krefst þess að Sig­ríður Á. Ander­sen segi af sér sem dóms­mála­ráð­herra „án tafar“. Flokkurinn segir ráð­herrann hafa stuðlað að mann­réttinda­brotum í Lands­réttar­málinu svo­kallaða og hefur kallað eftir sér­stökum um­ræðum um á­hrif dómsins á ís­lenska réttar­ríkið. 

Þetta kemur fram í til­kynningu sem Píratar sendu frá sér í kjöl­far niður­stöðu Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu, þess efnis að ís­lenska ríkið hafi gerst brot­legt við skipan dómara við Lands­rétt. 

„Lands­réttar­málið er skýrt dæmi um ó­eðli­leg af­skipti fram­kvæmda­valdsins af dóms­valdinu og pólitíska spillingu. Við­brögð ríkis­stjórnarinnar í dag munu koma til með að skera úr um traust al­mennings til Al­þingis, dóm­stóla og fram­kvæmda­valdsins til fram­tíðar,” segir í til­kynningunni. 

Um sé að ræða á­fellis­dóm yfir at­höfnum ráð­herrans. 

„Dómurinn sýnir svo ekki verður um villst að með ó­lög­mætri skipan sinni hafi dóms­mála­ráð­herra stuðlað að mann­réttinda­brotum í garð allra þeirra sem hafa þurft að sæta máls­með­ferð af hálfu ó­lög­lega og pólitískt skipaðra dómara. Píratar hafa í­trekað bent á að skipanin væri ó­lög­mæt og at­hafnir Sig­ríðar Á. Ander­sen ó­for­svaran­legar og brot á 1. mgr. 6. gr. mann­réttinda­sátt­mála Evrópu um rétt­láta máls­með­ferð. Það hefur nú verið stað­fest bæði af Hæsta­rétti og af Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu.“ 

Píratar hafa farið fram á sér­stakar um­ræður við for­sætis­ráð­herra á Al­þingi og að Sig­ríður komi á opnn fund alls­herjar- og mennta­mála­nefndar vegna dómsins. Frétta­blaðið hefur ekki náð tali af Sig­ríði í dag vegna málsins. 

Logi Már Einars­son og Helga Vala Helga­dóttir hjá Sam­fylkingunni hafa bæði lýst því yfir að þau vilji að dóms­mála­ráð­herra segi af sér em­bætti.