Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði það skrítna stöðu þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja hækka álögur á almenning en hún sem þingmaður Vinstri grænna talar fyrir stillingu í þeim efnum. Rósa var ásamt Vilhjálmi Árnasyni Sjálfstæðismanni og Birni Leví Gunnarssyni Pírati gestur hjá Björtu Ólafsdóttur á Þingvöllum á K100 í morgun.

Þingmennirnir þrír og ráðherrann fyrrverandi ræddu m.a. veggjöld. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði fyrir mikilvægi veggjalda til að flýta fyrir uppbyggingu samgöngumannvirkja og til að mæta uppsafnaðri fjárfestingarþörf í samgöngukerfinu.

Rósa Björk, sem skrifaði grein á Kjarnann um hátíðirnar þar sem hún veltur upp efasemdum sínum um veggjöldin fyrirhuguðu, sagði að það væri skrítið þegar þingmenn Vinstri grænna reyndu að róa Sjálfstæðismenn niður í álagningu skatta og gjalda.

Eins og vitað er komu veggjöld óvænt inn í umræðuna í desember og var þingsályktun þess efnis lögð fyrir Alþingi. Jón Gunnarsson, núverandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar þingsins, hafði áform um slík gjöld í tíð sinni sem samgönguráðherra árið 2017. 

Samgöngumál hafa lengi verið eitt helsta áherslumál Vilhjálms. „Þetta snýst um að setja 10 milljarða til viðbótar árlega í samgöngukerfið. Ég skal vera fyrstur til að falla frá veggjöldum ef það næst pólitísk sátt með að auka 10 milljarða á ári,“ sagði Vilhjálmur.

Aðspurður af þáttastjórnanda hvar Vilhjálmur myndi vilja skera niður sagði hann að víða væri hægt að skera niður í félags- og heilbrigðiskerfinu, en jafnframt væri víða hægt að nýta pening betur. Björn Leví benti á ríkisstjórnin hafi lækkað skatta um 12 milljarða og því hefði verið hægt að nota þann pening til uppbygginga á samgöngukerfinu.