Varð­stjóri á vakt hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum sagði blendnar til­finningar fylgja því að standa vaktina í ár. „Þetta er skrítið, það er ekki hægt að segja annað," segir Jón Bragi Arnars­son, varð­stjóri hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Í fyrsta skipti í 105 ár eru engir við­burðir í tengslum við Þjóð­há­tíð haldnir í Vest­manna­eyjum en líkt og al­þjóð veit var Þjóð­há­tíð af­lýst í ár vegna Co­vid-19.

Tjald­stæðið tómt

Þar sem venju­lega væru þúsundir manna að fagna er nú að­eins að finna ör­fáar hræður.

„Það er ekki mikið af fólki hérna nema kannski nokkrir er­lendir túr­istar,“ segir Jón Bragi. Hann bendir á að nánast enginn sé á tjald­svæðinu í bænum, sem er alla jafna fullt á þessum árs­tíma. „Þetta er öðru­vísi ár.“

Róleg helgi

Skortur á há­tíðar­höldum fylgir því þó að færri mál hafa ratað á borð lög­reglu um helgina en ella. Jón Bragi segir eitt­hvað hafa verið um skemmtanir í bíl­skúrum og heima­húsum en um sé að ræða litla hópa á víð og dreif um eyjuna. Til­kynningar bárust einnig um há­vaða og skot­elda sem skotið var upp víðs vegar um bæinn í nótt.

„Það er búið að vera mjög ró­legt og gott hjá okkur,“ segir Jón Bragi sem á ekki von á öðru en að kvöldið í kvöld verði með besta móti.