Breskur dómstóll hefur dæmt David Carrick, fyrrverandi lögregluþjón, í að minnsta kosti 30 ára fangelsi fyrir nauðganir gegn tólf konum.
David starfaði fyrir Lundúnalögregluna um margra ára skeið en brotin voru framin á árunum 2003 til 2020. Hann játaði sök þegar málið var tekið fyrir í janúar síðastliðnum.
Í frétt BBC kemur fram að David hafi verið kallaður „skrímslið“ eftir að upp komst um brot hans. Dómari sagði það sérstaklega alvarlegt að brotin hafi hann framið á meðan hann var lögreglumaður og hlutverk hans verið að gæta að öryggi almennings.
Carrick er sagður hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína til hins ítrasta og sannfært fórnarlömb sín um að ástæðulaust væri að leggja fram kæru þar sem hann væri lögreglumaður. Í að minnsta kosti eitt skiptið hótaði hann fórnarlambi sínu með skotvopni meðan hann kom fram vilja sínum.
Lundúnalögreglan hefur legið undir ámæli vegna málsins en Carrick hafði verið ásakaður um kynferðisbrot í nokkur skipti áður en formleg rannsókn hófst á brotum hans. Barbara Gray, aðstoðarlögreglustjóri Lundúnalögreglunnar, baðst afsökunar á að ekki var brugðist við fyrr.
Carrick, sem er 48 ára, þarf að sitja inni í að minnsta kosti 30 ár vegna brota sinna áður en hann getur sótt um reynslulausn.