Háhyrningaþjálfarinn John Hargrove, sem vann í 20 ár hjá Sea World, segir að skrímsli hafi verið búin til í garðinum með blöndun íslenskra og argentínskra háhyrninga. Þeir séu afar árásargjarnir og ekki hjálpi til að þeir séu geymdir í búrum.

Fyrstu lifandi háhyrningarnir voru veiddir við Íslandsstrendur árið 1975 við Vík í Mýrdal og var komið fyrir í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Ári seinna hóf Sædýrasafnið útflutning á dýrum vegna mikillar eftirspurnar erlendra skemmtigarða. Sala á háhyrningum og háhyrningasæði var helsta tekjulind Sædýrasafnsins sem barðist fjárhagslega í bökkum.

Alls voru 63 dýr veidd og seld til útlanda á árunum 1976 til 1989, jafnvel eftir að Sædýrasafnið var komið í gjaldþrotameðferð. Þá undir merkjum fyrirtækisins Fauna. Þekktastur íslensku háhyrninganna var Siggi, sem seinna fékk nafnið Keiko.

Hargrove, sem kom fram í hinni þekktu heimildarmynd Blackfish, segir við breska blaðið The Sun að kynblöndun íslenskra og argentínskra háhyrninga, hafi valdið miklum vandræðum fyrir garðana. Af 18 háhyrningum í eigu Sea World eru sex blendingar sem sýnt hafa árásargirni. Meðal þeirra er Keto, sem drap þjálfara sinn þegar hann var lánaður til dýragarðsins Loro Parque á Tenerife.

„Þetta er eins og Jurassic World. Forsenda þeirrar myndar er að þeir bjuggu til blendingsrisaeðlur,“ segir Hargrove.

Hann segir forsvarsmenn Sea World hafa hagað sér með afar óábyrgum hætti því þeir hafi ekki haft hugmynd um hvers konar afkvæmi yrðu til úr blönduninni. Þessir hvalir myndu aldrei blandast úti í náttúrunni.